Rannsakendur á vegum Sameinuðu þjóðanna kölluðu á föstudag eftir því að loftárásir Atlantshafsbandalagsins (NATO) á Líbíu yrðu rannsakaðar frekar í ljósi þess að þeim hefði ekki tekist að sannreyna að bandalagið hefði gripið til allra varúðarráðstafana í nokkrum árásanna til þess að vernda almenna borgara.
„Nefndin gerir sér grein fyrir að almennir borgarar láta stundum lífið í lögmætum hernaðaraðgerðum. Henni tókst hins vegar ekki að staðfesta í nokkrum loftárásum hvort NATO hefði haft varann nægilega á til að vernda almenna borgara, eins og því bar skylda til,“ sagði Philip Kirsch, sem fór fyrir nefndinni.
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna skipaði nefndina til þess að rannsaka loftárásir NATO á Líbíu. Rannsóknarnefndin hefur nú athugað 20 loftárásir, sem fóru fram í fyrra. Í fimm þeirra létust samtals 60 almennir borgarar og 55 særðust.
NATO hélt því fram að ráðið hefði gripið til „allra mögulegra varúðarráðstafana“ til að lágmarka skaða fyrir almenning.
Kirsch sagði að nefndin hefði ekki fengið nægilegt magn af gögnum til að sannreyna að þessi staðhæfing NATO væri rétt.
„Nefnd þessi mælir með því að málið verði rannsakað frekar.“