Kjósa um „vændisbílskúra“

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Reuters

Á morgun munu íbúar svissnesku borgarinnar Zürich greiða atkvæði um það hvort borgaryfirvöld hefji byggingu svokallaðra „vændisbílskúra“.

Byggingaráætlunin sem um ræðir felur það í sér að byggt verði sérstakt bílastæðasvæði fyrir vændiskonur við jaðar borgarinnar. Ætlunin er að vændiskonur gangi um á svæðinu og að mögulegir kúnnar þeirra geti keyrt þar um en síðan geti kúnnarnir keyrt með konurnar inn í sérstaka bílskúra. Svæðið verður síðan útbúið bæði sturtu- og salernisaðstöðu, en þar að auki er gert ráð fyrir því að kvensjúkdómalæknir verði þar á vakt ásamt sjálfboðaliðum frá kvenréttindasamtökum sem munu bjóða vændiskonunum aðstoð sína.

Tilgangurinn með byggingu svæðisins er sagður vera sá að draga úr götuvændi nálægt íbúðarhverfum, m.a. í hverfinu Sihlquai. Þrjár borgir í nágrannaríkinu Þýskalandi, Köln, Bonn og Dortmund hafa núþegar reynt svipaðar lausnir en þó með misjöfnum árangri. Í Köln er talið að svæðin hafi dregið úr ofbeldi gegn vændiskonum en í Dortmund telja menn að svæðin hafi laðað til sín glæpi.

„Það er mikil samkeppni í nágrenni við Sihlquai, þar sem margar konur fara ásamt kúnnum sínum í bakgarða hjá byggingum, slíkt skapar erfiðar aðstæður fyrir íbúa sem þurfa að kljást við lætin og hávaðan sem þessu fylgir,“ sagði Ursula Kocher, forstöðukona kvenfélagsins Flora Dora. Femínistar í borginni eru þó ekki sannfærðir um gangsemi bílskúranna. Að sögn Andreu Geislar, formanns femínistafélagsins Zürcher Frauenzentrale, leysa skúrarnir ekki vandann heldur færa hann einungis til.

Lesa má nánar um málið á vefnum The Local.ch.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert