Eric Joyce, þingmaður breska Verkamannaflokksins, tjáði lögreglumönnum það að sem þingmaður væri hann „ósnertanlegur“ þegar hann var handtekinn hinn 22. febrúar síðastliðinn fyrir líkamsárás gagnvart fjórum stjórnmálamönnum á barnum „Stranger's bar“ sem er í Westminsterhöll.
Var mál Joyce tekið fyrir af dómstólum en þá heyrðust í fyrsta sinn nákvæmar frásagnir af líkamsárásunum. Þar kom m.a. fram að Joyce hefði sagt orðrétt við lögreglumennina sem handtóku hann: „Þið getið ekki snert mig, ég er þingmaður.“
Málsatvik voru þau að Joyce, sem þá hafði drukkið um það bil heila vínflösku, öskraði með blótsyrðum að barinn væri fullur af íhaldsmönnum. Þegar Joyce var tjáð af Andrew Percy, þingmanni Íhaldsflokksins, að „svona hagi menn sér ekki“ togaði hann í hálsbindi Percys. Alan Sherbrooke, þingmaður Íhaldsflokksins, sagði þá við Joyce að „svona geri menn ekki við þingmenn á stöðum sem þessum“ en Joyce reiddist við þetta og reyndi án árangurs að slá Sherbrook.
Því næst reyndi Luke Mackenzie, sveitarstjórnarfulltrúi fyrir Íhaldsflokkinn í Basildon, að skakka leikinn en Joyce sló hann bæði á munn og nef. Ben Maney, sveitarstjórnarfulltrúi fyrir Íhaldsflokkinn í Thurrock, reyndi þá að halda Joyce föstum en við það skallaði Joyce hann í höfuðið.
Phil Wilson, þingmaður og „svipa“ Verkamannaflokksins, hugðist þá reyna að róa Joyce og lagði hönd sína á öxl hans í þeim tilgangi, en Joyce brást reiður við og sló Wilson í andlitið þannig að hann datt aftur fyrir sig á stól. Þingkonunni Jackie Doyle-Price tókst tímabundið að stöðva árásirnar þegar hún tjáði Joyce að „ef þú ætlar að slá starfsfólk mitt, þá skaltu fyrst slá mig. Þú vilt ekki slá konu“. Þegar lögreglumenn mættu loks á staðinn sagði Percy þeim að Joyce hefði ráðist á sig en við það tók Joyce sig til og skallaði Percy fyrir framan lögreglumennina.
Joyce viðurkenndi brot sín fyrir dómi í gær. Hann hefur nú verið dæmdur til að greiða þrjú þúsund sterlingspund í sekt, eða sem nemur tæpum 600 þúsund íslenskum krónum. Þar að auki var hann dæmdur til þess að greiða fórnarlömbum sínum skaðabætur en svo var honum einnig gert óheimilt að fara inn á barinn næstu þrjá mánuði. Joyce mun jafnframt þurfa að axla pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum en hann honum var vikið tímabundið úr Verkamannaflokknum eftir atvikið og nú er allar líkur taldar á að honum verði varanlega vikið úr flokknum.
Nánar má lesa um málið á vef Daily Telegraph.