Delors: Óánægjan með ESB orðin almenn

Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB.
Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB. Reuters

Forystumenn Evrópusambandsins eru svo uppteknir af efnahagskreppunni á evrusvæðinu að þeir átta sig ekki á því að þeir eru á góðri leið með að skapa ólýðræðislegt samband þar sem lítil ríki eins og Danmörk hafa ekki möguleika á að láta til sín taka. Þetta segir Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, í samtali við danska dagblaðið Politiken um helgina.

„Allt annað en evran er hunsað í raun og Þýskaland hefur tekið völdin á meðan Frakkland reynir að halda í við það,“ segir Delors. Danir tóku við forsætinu innan ESB um áramótin og hafa það með höndum fram í lok júní í sumar, en hann segir að rödd þess heyrist ekki vegna þess neikvæða andrúmslofts sem stóru ríkin innan sambandsins hafi skapað.

„Því meiri sem samvinnan verður á milli ríkjanna því minni verða möguleikar Danmerkur á áhrifum. Þið hafið svo margt upp á að bjóða, í umhverfismálum og velferðarmálum. En ágallar ESB gera forsæti Danmerkur erfitt um vik. Danmörk gæti verið í lykilhlutverki sem brúarsmiður. En er einhver sem er virkilega áhugasamur um það núna? Nei,“ segir Delors.

Delors er að sama skapi harðorður um það hvernig forystumenn ESB hafa haldið á málum við að finna lausn á efnahagskreppu evrusvæðisins. „Núverandi leiðtoga ESB skortir framtíðarsýn og sagan mun dæma þá hart fyrir það,“ segir hann. Hann segir að íbúar ríkja ESB skilji ekki lengur út á hvað sambandið gengur og því skilji hann vel að Danir vilji ekki taka upp evruna.

„Þetta er vandræðamál fyrir Danmörku eins og staðan er nú. Það er orðið erfitt fyrir fólk að átta sig á þessu öllu saman. Og þá á ég ekki bara við þá sem hafa efasemdir. Ég geri ráð fyrir að þeir sem væru til í að segja já við evrunni spyrji sjálfa sig hvort það sé góð hugmynd núna. Óánægjan með ESB er því miður orðin almenn,“ segir Delors.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka