Nabil al-Arabi leiðtogi Arababandalagsins, biðlar til alþjóðasamfélagsins um að hlutast til um ofbeldi stjórnvalda í Sýrlandi gegn óbreyttum borgurum. Myndir af limlestum líkum kvenna og barna í borginni Homs í Sýrlandi hafa vakið óhug víða um heim.
„Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla um þá glæpi sem hafa verið framdir gagnvart almennum borgurum í borgunum Homs og Idlib, er um að ræða glæpi gegn mannkyni,“ sagði al-Arabi. „Alþjóðleg og sjálfstæð rannsókn verður að fara fram til að leiða sannleikann í ljós. Við verðum að fá að vita hvað hefur gerst og hverjir eru ábyrgir fyrir því og láta þá svara fyrir sakir sínar,“ sagði hann.
Al-Arabi lagði áherslu á að enginn ætti að þegja yfir ástandi mála í Sýrlandi frá mannúðar- og siðferðissjónarmiði. Hann hvatti ennfremur sýrlensku ríkisstjórnina til að leggja alþjóðlegri rannsókn lið og að refsa þeim seku.
Skelfilegum myndum frá Homs var sjónvarpað um víða veröld í gær, en þar sáust lík 47 kvenna og barna sem höfðu verið myrt. Sýrlenska ríkissjónvarpið sýndi líka myndir í gær þar sem sýndir voru hvítir húsveggir, sem þaktir voru blóði og lík kvenna og barna sem hafði verið staflað upp.
Einnig sýndi sjónvarpið myndir af karlmönnum, sem höfðu verið skotnir í höfuðið og voru með hendurnar bundnar fyrir aftan bak.
Mannréttindasamtök segja að meira en 8500 manns hafi verið myrtir í mótmælunum í Sýrlandi undanfarið ár.