Sarkozy fékk 8,3 milljarða frá Gaddafi

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands. CHARLES PLATIAU

Muammar Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, fjármagnaði framboð Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum í Frakklandi árið 2007 en hann lagði til um 8,3 milljarða króna. Þetta kemur fram á minnisblaði sem síðan Mediapart komst yfir og hefur afhent dómara.

Fjallað er um málið á síðu The Telegraph. Þar segir að Gaddafi og Sarkozy hafi fundað tveimur árum fyrr í Líbíu, nánar tiltekið 6. október 2005, á meðan Sarkozy gegndi embætti innanríkisráðherra en það var þá vel þekkt að hann hafði mikinn áhuga á forsetaembættinu. Var ákveðið að Gaddafi myndi alfarið greiða fyrir kosningabaráttu Sarkozy.

Lögum samkvæmt má forsetaframbjóðandi ekki þiggja fjárframlög sem eru hærri en 7.500 evrur eða tæpar 1,3 milljónir kr. Mediapart segir að peningarnir frá Gaddafi hafi verið millifærðir inn á bankareikninga í Sviss og Panama. Hafi svissneski reikningurinn verið skráður á nafn systur Jean-Francois Copé, leiðtoga UMP-flokks Sarkozy.

Í minnisblaðinu er minnst á að „ZT“ hafi haft milligöngu um málið en stafirnir eru taldir standa fyrir Ziad Takieddine sem er þekktur vopnasali. Vitað er að hann er nátengdur nokkrum helstu aðstoðarmönnum Sarkozy.

Sonur Gaddafis, Saif-al Islam Gaddafi, hélt því fram í fyrra að Líbía hefði borgað fyrir kosningabaráttu Sarkozy. „Sarkozy þarf að borga til baka það fé sem hann tók frá Líbíu til að fjármagna kosningabaráttu sína. Við greiddum fyrir hana. Við erum með allar upplýsingarnar og eru reiðubúin til að ljóstra öll upp,“ sagði hann. „Það fyrsta sem við viljum að þessi loddari geri er að skila peningunum aftur til líbísku þjóðarinnar. Hann fékk þessa aðstoð til þess að hann gæti hjálpað henni en hann hefur valdið okkur vonbrigðum. Skilaðu okkur peningunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert