Saksóknari í Sviss segir ekkert hafa komið fram sem bendi til þess að rútan sem ók á vegg jarðganga í Sviss í gærkvöldi hafi verið á of miklum hraða. 28 létust í slysinu, þar af voru 21 frá Belgíu og 7 frá Hollandi.
22 börn létust í slysinu, en flest voru þau 12 ára gömul. Enginn sem var í rútunni slapp ómeiddur. Harmi slegnir foreldrar og ættingjar þeirra sem létust í slysinu hafa streymt til Sviss í dag.
Rannsókn á slysinu er hafin, en saksóknari segir ekkert liggja fyrir um hvað gerðist. Búið sé að mæla hraða rútunnar og ekkert bendi til að henni hafi verið ekið yfir hámarkshraða. Leyfilegt er að aka á 100 km hraða þar sem slysið varð.
Saksóknari segir að verið sé að rannsaka þrjár líklegar orsakir fyrir slysinu; að bilun hafi orðið í rútunni, að ökumaðurinn hafi veikst eða að mannleg mistök hafi orsakað slysið.
Ökumaður rútunnar lést í slysinu. Lík hans verður krufið til að reyna að komast að því hvort hugsanleg veikindi hans hafi átt þátt í slysinu. Rannsakendur munu einnig skoða upptökur úr öryggismyndavélum í og við göngin.