Er Pútín að missa tökin?

Vladimír Pútín.
Vladimír Pútín. AP

Vladimír Pútín er næsti forseti Rússlands. Hann hefur verið við völd í landinu frá því í upphafi aldarinnar. Honum fylgdi stöðugleiki, en spilling hefur einnig grasserað í Rússlandi og lýðræði aðeins notað til skrauts. Þrátt fyrir sigurinn á Pútín hins vegar á brattann að sækja. 

Þótt Vladimír Pútín sé nýkrýndur sigurvegari í forsetakosninganna í Rússlandi og setjist brátt að nýju í forsetstól er ekki hægt að segja að þar fari leiðtogi, sem tryggur í sessi muni stjórna Rússlandi næstu sex ár og jafnvel tólf. Sú tilfinning vaknar mun frekar að hann sé að missa tökin. Í raun er hann veikari en nokkru sinni og í vetur hefur það versta hent hann sem komið getur fyrir hinn sterka leiðtoga. Hann er orðinn hlægilegur.

Pútín hafður að háði og spotti

Það er spurning hvort það gerðist 20. nóvember, tveimur vikum fyrir þingkosningarnar þegar Pútín fór í ólympísku íþróttahöllina í Moskvu á viðureign í blönduðum bardaga milli Rússa og Bandaríkjamanns. Í stuttu máli barði Rússinn Bandaríkjamanninn til óbóta. Bardaginn var sýndur í beinni útsendingu og iðulega mátti sjá svipbrigðalaust andlit Pútíns. Þegar viðureigninni lauk fór Pútín inn í hringinn. Hann kallaði Bandaríkjamanninn, sem var fótbrotinn og stokkbólginn í andliti, „raunverulegan karlmann“ og bætti við að sigurvegarinn væri „raunveruleg, rússnesk hetja“. Á meðan Pútín talaði gerðist það óvænta. Margir í hópnum fóru að baula og blístra og óhljóðin heyrðust greinilega í sjónvarpinu. Myndskeið með atvikinu var sett á vefinn YouTube og breiddist út eins og eldur í sinu.

Eða var það þegar Pútín fór til Sennoj við Svartahafið 10. ágúst í fyrra gegnt Krímskaga þar sem Pótemkín fursti setti upp skrautgafla til að Katrín mikla keisaraynja héldi að hún væri að fara í gegnum blómleg þorp fyrir rúmum tveimur öldum. Fór á ströndina í kafarabúningi og dembdi sér í kaf. Þegar hann kom aftur upp á yfirborðið var hann með tvo forláta vasa frá 6. öld eftir Krist í höndunum. Í stjórnartíðindunum Rossiskaja gaseta var talað um „sögulegan fund“. Netið fylltist um leið af athugasemdum. Rússar hæddust að uppákomunni. Auðvitað hefðu þessi forngripir, lágu á tveggja metra dýpi, farið fram hjá mörg hundruð fornleifafræðingum, sem fínkembt höfðu svæðið í tæp 80 ár. Síðan veltu menn fyrir sér hvort vasarnir, sem glampaði á eins og væru þeir nýfægðir þrátt fyrir hafa legið í sjó í 1.500 ár, hefðu verið keyptir í Ikea. Á endanum gekkst talsmaður Pútíns við því að vasarnir væru engir forngripir án þess að mikið bæri á.

Árum saman hefur Pútín gengið í augun á þjóð sinni með því að hnykla vöðvana fyrir framan hana. Talsmenn hans hafa ekki dregið af og kallað hann „sendingu frá guði“ og lykilinn að „lausn allra vandamála á plánetu okkar“.

Kröftug mótmæli komu öllum í opna skjöldu

Þegar Pútín tilkynnti í september að hann ætlaði að hafa stólaskipti við Dmítrí Medvedev og verða forseti á ný urðu óánægjuraddirnar háværari og ekki bætti úr skák að hann sagði að þeir hefðu sammælst um þetta „fyrir löngu“. Eftir stórfellt kosningamisferli í þingkosningunum var mælirinn síðan fullur. Hin öflugu mótmæli virðast hins vegar hafa komið bæði stjórn og stjórnarandstöðunni í opna skjöldu og var ljóst í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 4. mars að Pútín áttaði sig ekki alveg á því hvernig hann ætti að hegða sér.

Júrí Tsjaíka dómsmálaráðherra lýsti yfir því að mótmælin ættu „rætur utan landamæra Rússlands“ og sagði að á netinu væri kynt undir öfgatilfinningum.

um leið var byrjað að hreinsa til. Landstjórarnir í Vologda, Arkangtelsk og Volgograd sögðu af sér auk borgarstjóra Krasnojarsk, Uljanovsk og Pskov. Áfram mætti telja. Þessar hreinsanir tóku til héraða og borga þar sem fylgi Sameinaðs Rússlands, flokks Pútíns, var 20% undir landsmeðaltali. Vandinn lá ekki í því að kjósendur voru óánægðir með hið pólitíska ástand heldur hafði ekki tekist að knýja fram rétta niðurstöðu á tilteknum stöðum.

Spilling hefur margfaldast í valdatíð Pútíns

Pútín hefði ef til vill verið nær að hreinsa út spillinguna í landinu. Vítalí Nomokonov, lagaprófessor við háskólann í Vladivostok, tekur sitt hérað sem dæmi í samtali við Der Spiegel. Þar býr leikkonan Larissa Belobrova, sem var með 27 milljónir evra (4,4 milljarða króna) í tekjur 2010. Hún er einnig eiginkona landstjórans í Vladivostok, Sergejs Darkins, sem hefur verið þar við völd í skjóli Pútíns í ellefu ár. Pútín breytti á sínum tíma leikreglunum þannig að landstjórar eru ekki lengur kjörnir heldur velur hann þá beint. Það er mál manna að yrði gengið til kosninga í Vladivostok væri valdatíð Darkins úti.

Hafnarborgin Vladivostok er talin helsta vígi spillingar í Rússlandi. Samkvæmt Der Spiegellagði Darkin gruninn að velmegun sinni er hann stofnaði fyrirtæki, sem í rússneska innanríkisráðuneytinu kallast „vespuhreiður skipulagðar glæpastarfsemi“. Í þá tíð var núverandi kona hans í tygjum við þekktan undirheimaforingja í borginni, Ígor „karfa“ Karpov. Leyniskyttur réðu Karpov af dögum á almannafæri og skömmu síðar gerðist Belobrowa heitbundin landstjóranum.

„Það sem gerist hjá okkur er á afskræmdan máta dæmigert fyrir allt Rússland,“ segir áðurnefndur Nomokonov um ástandið í Vladivostok. „Hjá okkur eru einkum stórviðskipti glæpsamleg, það svið, sem einmitt ætti að vera óspilltast vegna nálægðarinnar við pólitíkina.“

Af hverju á Pútín að hreinsa upp eigin óreiðu?

Nomokonov segir að enginn ágreiningur sé um það að ráðamenn í Moskvu viti allt um það hvernig kaupin gerist á eyrinni í Vladivostok, en engu að síður fái Darkin að sitja áfram. Ástæðan sé sú að auðvelt sé að beygja hann til hlýðni út af fortíð hans og hann tryggir að háttsettir embættismenn fá eitthvað fyrir snúð sinn.

Talið er að á þeim tíma, sem Pútín hefur verið við völd, hafi mútur í Rússlandi hækkað úr 33 milljörðum dollara (4.215 milljörðum króna) í 400 milljarða dollara (51.000 milljarða króna).

„Meira að segja Medvedev forseti hefur viðurkennt að ekki hafi orðið neinar framfarir,“ segir Nomokonov. „Hvers vegna er það þannig? Vegna þess að valdhafana skortir pólitískan vilja.“

Pútín gaf í kosningabaráttunni til kynna að eftir kosningarnar tækju við breyttir tímar. „Við munum láta ríkisvaldið standa þjóðfélaginu, sem það vinnur fyrir, reikningsskil,“ segir í stefnuskrá Pútíns. Einnig sagði hann að einungis „pólitísk samkeppni“ leiddi lýðræðið fram á við.

Gleb Pavlovskí skipulagði kosningabaráttu Pútíns árin 2000 og 2004. Hann var andófsmaður í tíð Sovétríkjanna og lagði Borís Jeltsíns lið. Pavlovskí lýsti opinberlega yfir því að hann teldi að Medvedev ætti að bjóða sig fram öðru sinni. Pavlovskí segir í „Der Spiegel“ að mikilvæg spurning vakni þegar farið er í gegnum stefnuskrá Pútíns: „Hvers vegna ætti sama liðið nú að sjá um að hreinsa til það sem það innleiddi sjálft?“

En skilaboð Pútíns eru misvísandi. Hann kveðst einnig ætla að endurreisa vald og mátt ríkisins. Ekki er talað um aukna þátttöku almennings í stjórnmálum. Hins vegar talar Pútín um „skaðlega krafta“ sem með valdi reyna að flytja út sína útgáfu lýðræðis til Rússlands og ógni þannig stöðugleika landsins. Fólk megi ekki láta blekkjast af fagurgala minnihlutans.

Sannfærður um að hann hafi alltaf rétt fyrir sér

Pavlovskí segir að þetta sé málflutningur manns, sem vilji óbreytt ástand, ekki þess, sem í raun vilji knýja fram breytingar.

Nikolaj Slóbín er rússneskur sagnfræðingur og rithöfundur, sem hefur kennt í Washington og við Harvard í tæp tuttugu ár. Hann hittir Pútín reglulega. Der Spiegelhefur eftir honum að Pútín sé fullur sjálfstrausts og sannfærður um að hann hafi alltaf rétt fyrir sér. Hann sé ekki mikið fyrir að velta hlutunum fyrir sér. Hann lifi í þeirri trú að hann hafi fullkomna stjórn á því kerfi, sem hann hafi komið á, og án hans lifi kerfið ekki af. Hann hafi hvorki áhuga á skoðunum almennings, né elítunnar.

Þýski sagnfræðingurinn Alexander Rahr er á sama máli, Pútín sé sannfærður um að stöðugleiki Rússlands sé undir honum einum kominn, en hann hafi enga heimssýn.

Mótmælin hafa haldið áfram í Rússlandi eftir kosningarnar og Pútín lætur taka á þeim af hörku. „Ef Pútín tekst ekki að sigrast á sjálfum sér og breyta hlutunum mun öllu ljúka á torgum borganna,“ sagði Míkhaíl Gorbatsjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna.

Rithöfundurinn Borís Akúnín, sem er vinsælasti glæpasagnahöfundur Rússlands og hefur verið þýddur á íslensku, er í forustu stjórnarandstöðunnar. Hann er einn af helstu ræðumönnunum á mótmælafundum. „Pútín er búinn að glata landi sínu,“ segir Akúnín. „Ég óska þess ekki að hann hljóti örlög Moammars Gaddafis, en hann ætti að láta stjórnartaumana í hendur eftirmanns síns. Sem sagnfræðingur veit ég að einræðiskerfi hrynja þegar gjáin á milli valdhafanna og undirsátanna verður of stór.“

Í haust þegar Pútín tilkynnti að hann ætlaði að sér að setjast aftur í forsetastól veltu Akúnín og kona hans fyrir sér að flytjast úr landi. „Við höfðum misst alla von um að fólk myndi vakna úr sinnuleysi sínu. Engin reiknaði með þessari uppreisn.“

Þótt andstaðan við Pútín hafi vaxið fiskur um hrygg með furðu miklum hraða á hann sér enn dygga stuðningsmenn. „Við erum ekki stjórnarandstaðan, við erum vinnuveitendur ykkar,“ hrópa andstæðingar hins nýkjörna forseta. „Pútín, hypjaðu þig.“ Fylgjendur Pútíns telja hins vegar að hann sé „síðasta vígið gegn nýju heimsveldi hins illa“ og eiga þar við Bandaríkin. Þeir segja að komist stjórnarandstaðan til valda taki glundroðinn við þar sem allir berjist gegn öllum, borgarastríð muni brjótast út og blóðið renna í stríðum straumum.

Ýmsir andstæðingar Pútíns spá því að hann muni ekki endast við völd út kjörtímabilið og telja að jafnvel geti farið fyrir honum eins og Jeltsín, sem hrökklaðist frá völdum og setti lítt þekktan starfsmann KGB í sinn stað. Hann hét Pútín. Framtíð Pútíns veltur á því hvort honum tekst að ná sér á strik og afla sér virðingar á ný. Miklar breytingar hafa átt sér stað í valdatíð Pútíns og þar er nú sprottin upp millistétt, sem aldrei hefur verið stærri í landinu. Millistéttin er greinilega ekki tilbúin að sætta sig við stjórnarfar Pútíns. Ætli hann að ná vopnum sínum verður hann að gera sér grein fyrir þessum breyttu aðstæðum, sem hann er sjálfur rótin að.

Vladimír Pútín
Vladimír Pútín AP
Frá mótmælum gegn Pútín.
Frá mótmælum gegn Pútín. Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert