Verði ekki komið á nauðsynlegum umbótum á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins gæti svo farið að sjávarfangi að verðmæti einum milljarði punda yrði kastað aftur í hafið af fiskveiðiflota sambandsins næsta áratuginn. Þetta segir sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead.
Fram kemur í frétt AP að samkvæmt stefnu ESB séu sjómenn tilneyddir að henda aftur í hafið fiski til þess að halda sig innan strangra reglna sambandsins um fiskveiðikvóta. Að sögn skoskra yfirvalda gæti brottkast í Norðursjó aðallega á þorski og ýsu numið 350 milljónum punda fram til ársins 2022.
„Þetta svívirðilega brottkast á seljanlegum fiski í hafið er iðulega neytt upp á sjómennina okkar vegna hinnar gölluðu sameiginlegu sjávarútvegsstefnu,“ segir Lochhead. „Þess vegna hef ég í vonbrigðum mínum kallað eftir því í mörg ár að gripið yrði til aðgerða til þess að stöðva þetta efnahagslega og vistfræðilega brjálæði.“
Hann segist ánægður með að loksins sé ESB að skoða málið og að ræða í alvöru hvernig eigi að takast á við brottkastið en sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins er nú til endurskoðunar.
Maria Damanaki, yfirmaður sjávarútvegsmála í framkvæmdastjórn ESB, hefur tekið vel í að brottkast verði bannað en áhrifamikil ríki innan sambandsins undir forystu Frakklands og Spánar hafa hins vegar lagst gegn því samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Guardian.