Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að frysta lágmarkslaun þarlendra ungmenna af ótta við að það gæti að öðrum kosti hindrað það að ný störf yrðu til. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph segir frá þessu í dag.
Haft er eftir viðskiptaráðherra Bretlands, Vince Cable, að um mjög erfiða ákvörðun hafi verið að ræða. Hins vegar myndi það gagnast þeirri einu milljón ungmenna sem væru án vinnu í landinu ef þessi aðgerð skapaði fleiri störf.
Gert er ráð fyrir að lágmarkslaun þeirra sem eru eldri en tvítugir hækki um 1,8% í október næstkomandi og verði þá 6,19 pund á tímann eða rúmar 1.200 krónur. Lágmarkslaun 18-20 ára verði hins vegar óbreytt í 4,98 pundum á tímann og sömuleiðis laun 16-17 ára í 3,68 pundum.