Rússar ætla að halda til streitu banni á innflutninga lifandi svína og nautgripa frá Evrópusambandslöndum, þrátt fyrir tilraunir sérfræðinga Evrópusambandsins til að telja þeim hughvarf.
Tilefnið er ótti við útbreiðslu Schmallenberg-vírussins, sem veldur fæðingargalla í búpeningi. Bannið tekur gildi á morgun, að sögn rússneskra yfirvalda vegna skorts á fullnægjandi öryggisaðgerðum af hálfu stofnana Evrópusambandsins.
Rússar vöruðu fyrst við því fyrir tveimur vikum að það kynni að koma til þessa, en upphaflega settu þeir tímabundið bann við innflutningi lifandi búpenings frá fimm löndum í Vestur-Evrópu í janúar. Lettar eru sérstaklega áhyggjufullir yfir banninu, enda gæti það leitt til þess að tveir þriðju hlutar af útflutningstekjum landsins töpuðust.
Hópur sérfræðinga flaug fyrir hönd ESB til Moskvu síðustu helgi til að ná sáttum, að kröfu Letta. Rússar sitja hins vegar fastir við sinn keip. Þeir tilgreina fjölda ástæðna og kvarta yfir slöku gæðaeftirliti innan ESB, það sé því undir sambandinu komið að bæta eigin verkferla.