Rannsaka dauða unglingspilts

Mótmælendur koma saman við dómshús í Titusville í Flórída á …
Mótmælendur koma saman við dómshús í Titusville í Flórída á sunndag og mótmæla meðferð árásarmanns unglingspiltsins. AP

Banda­ríska dóms­málaráðuneytið hef­ur ákveðið að hefja rann­sókn á dauða svarts ung­lings­pilts í Flórída en hann var skot­inn til bana af manni sem fór fyr­ir ná­granna­gæslu. Mik­il mót­mæli hafa fylgt í kjöl­far dauða drengs­ins.

Geor­ge Zimmerm­an, 28 ára, seg­ist hafa skotið hinn 17 ára gamla Tray­von Mart­in í sjálfs­vörn í síðasta mánuði. Hafði pilt­ur­inn komið inn í íbúa­hverfi sem er af­girt.

Zimmerm­an sá Mart­in þegar hann var við ná­granna­gæslu í hverf­inu. Hringdi hann til lög­regl­unn­ar og til­kynnti um dul­ar­full­ar manna­ferðir í hverf­inu. Gegn ráðum lög­regl­unn­ar elti Zimmerm­an pilt­inn uppi, en hann var á leið heim úr búð með full­an poka af sæl­gæti.

Dóms­málaráðuneytið seg­ir að al­rík­is­lög­regl­an, FBI, og rík­is­sak­sókn­ari muni aðstoða við rann­sókn máls­ins.

Málið hef­ur fengið mikla at­hygli í Banda­ríkj­un­um. Hafa yf­ir­völd verið hvött til að kæra Zimmerm­an og yfir hálf millj­ón manna skrifað und­ir beiðni þar um. Snemma í morg­un komu há­skóla­nem­ar um allt Flórída-ríki víðsveg­ar sam­an til mót­mæla og fóru fram á hand­töku Zimmerm­ans.

Skjóttu fyrst lög­in heim­ila sjálfs­vörn

Talað er um að yf­ir­völd eigi erfitt með að hand­taka Zimmerm­an þar sem hann hafi lög­um sam­kvæmt rétt til að verja sig, hafi um sjálfs­vörn verið að ræða. Sam­kvæmt eldri lög­um mega borg­ar­ar grípa til vopna í sjálfs­vörn en aðeins hafi þeir áður reynt að kom­ast und­an á flótta. Sam­kvæmt nýj­um lög­um eru hins veg­ar ekki kvaðir um að hafa gert flótta­tilraun áður en grípa megi til vopna í sjálfs­vörn. Lög­in eru kölluð Stattu á þínu eða „Stand your ground“ en and­stæðing­ar skot­vopna í Banda­ríkj­un­um kalla þau ein­fald­lega Skjóttu fyrst eða „Shoot First“. Flórída var fyrsta ríkið til að inn­leiða þessi nýju lög.

„Það mætti halda að San­ford (þar sem at­b­urður­inn átti sér stað) sé enn á 19. öld­inni, að halda því fram að þessi maður geti kallað það sjálfs­vörn að skjóta á óvopnaðan ung­lings­pilt,“ seg­ir veit­inga­húsa­eig­and­inn Linda Til­lm­an.

Sak­sókn­ar­ar gætu átt erfitt með að sanna annað en að um sjálfs­vörn hafi verið að ræða, sam­kvæmt nýju lög­un­um, þar sem eng­in vitni hafa gefið sig fram að at­b­urðinum. Lög­regl­an í San­ford hef­ur sagt að eng­ar vís­bend­ing­ar séu um annað en að Zimmerm­an hafi beitt skot­vopni í sjálfs­vörn.

Denn­is Baxley, re­públi­kani sem studdi Stattu á þínu-lög­in, seg­ir þau ekki hafa verið sam­in til að fólk gæti elt annað fólk uppi og skotið svo á það.

Trayvon Martin var sautján ára þegar hann var skotinn til …
Tray­von Mart­in var sautján ára þegar hann var skot­inn til bana. AP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert