Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að hefja rannsókn á dauða svarts unglingspilts í Flórída en hann var skotinn til bana af manni sem fór fyrir nágrannagæslu. Mikil mótmæli hafa fylgt í kjölfar dauða drengsins.
George Zimmerman, 28 ára, segist hafa skotið hinn 17 ára gamla Trayvon Martin í sjálfsvörn í síðasta mánuði. Hafði pilturinn komið inn í íbúahverfi sem er afgirt.
Zimmerman sá Martin þegar hann var við nágrannagæslu í hverfinu. Hringdi hann til lögreglunnar og tilkynnti um dularfullar mannaferðir í hverfinu. Gegn ráðum lögreglunnar elti Zimmerman piltinn uppi, en hann var á leið heim úr búð með fullan poka af sælgæti.
Dómsmálaráðuneytið segir að alríkislögreglan, FBI, og ríkissaksóknari muni aðstoða við rannsókn málsins.
Málið hefur fengið mikla athygli í Bandaríkjunum. Hafa yfirvöld verið hvött til að kæra Zimmerman og yfir hálf milljón manna skrifað undir beiðni þar um. Snemma í morgun komu háskólanemar um allt Flórída-ríki víðsvegar saman til mótmæla og fóru fram á handtöku Zimmermans.
Talað er um að yfirvöld eigi erfitt með að handtaka Zimmerman þar sem hann hafi lögum samkvæmt rétt til að verja sig, hafi um sjálfsvörn verið að ræða. Samkvæmt eldri lögum mega borgarar grípa til vopna í sjálfsvörn en aðeins hafi þeir áður reynt að komast undan á flótta. Samkvæmt nýjum lögum eru hins vegar ekki kvaðir um að hafa gert flóttatilraun áður en grípa megi til vopna í sjálfsvörn. Lögin eru kölluð Stattu á þínu eða „Stand your ground“ en andstæðingar skotvopna í Bandaríkjunum kalla þau einfaldlega Skjóttu fyrst eða „Shoot First“. Flórída var fyrsta ríkið til að innleiða þessi nýju lög.
„Það mætti halda að Sanford (þar sem atburðurinn átti sér stað) sé enn á 19. öldinni, að halda því fram að þessi maður geti kallað það sjálfsvörn að skjóta á óvopnaðan unglingspilt,“ segir veitingahúsaeigandinn Linda Tillman.
Saksóknarar gætu átt erfitt með að sanna annað en að um sjálfsvörn hafi verið að ræða, samkvæmt nýju lögunum, þar sem engin vitni hafa gefið sig fram að atburðinum. Lögreglan í Sanford hefur sagt að engar vísbendingar séu um annað en að Zimmerman hafi beitt skotvopni í sjálfsvörn.
Dennis Baxley, repúblikani sem studdi Stattu á þínu-lögin, segir þau ekki hafa verið samin til að fólk gæti elt annað fólk uppi og skotið svo á það.