Lýsti yfir ábyrgð við blaðamann

Mohammed Merah, sem nú er umkringdur í íbúð sinni í Toulouse, hringdi að sögn í nótt í fréttastofu France 24  og lýsti yfir ábyrgð á morðunum í Toulouse. Hann nefndi jafnframt að hvatirnar að baki aðgerðum hans hefðu meðal annars verið búrkubann, stríð í Afganistan og þjáningar fólks á Gaza-svæðinu.

Fréttastofa France 24 sagði fyrr í morgun að Mohammed Merah hafi sagt í samtali við blaðamann: „Ég mun fara í fangelsi og bera höfuð hátt, eða deyja með bros á vör.“

Samtalið mun hafa verið nokkuð langt og lögregla ákvarðaði að einungis maður, sem hefði staðið fyrir voðaverkunum, hefði getað lýst þeim af slíkri nákvæmi í samtali við blaðamann.

Mera mun einnig hafa sagt að hann myndi birta myndbönd á veraldarvefnum af voðaverkum sínum. Ekki er hins vegar ljóst hvort símtalið leiddi til þess að lögregla umkringdi íbúð hans í nótt. Vitað er að leyniþjónusta Frakklands hafði fylgst með honum um hríð.

Nýjustu fréttir herma jafnframt að Merah hafi verið í Afganistan í síðustu ár og meðal annars verið handtekinn í Kandahar fyrir að koma fyrir sprengjum í héraðinu. Hann hafi hins vegar sloppið úr fangelsi með einhverjum hætti, mögulega í uppreisn Talíbana innan veggja fangelsisins.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, ávarpaði fjölmiðla stuttlega í beinni sjónvarpsútsendingu rétt eftir klukkan 10 í morgun. Hann hrósaði lögreglu fyrir vel unnið starf.

„Við þurfum að standa sameinuð og ekki leita hefndar. Við þurfum að gera þetta fyrir fórnarlömbin, sem myrt voru í köldu blóði.“ 

Sarkozy sagði ennfremur að hann hefði fundað með leiðtogum gyðinga- og múslimasamfélaga í Frakklandi. „Hryðjuverkastarfsemi getur ekki látið hrikta í stoðum samfélagsins.“

Frá Toulouse.
Frá Toulouse. Reuter
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert