Árásarmaður ætlar að gefa sig fram síðdegis

Lögreglan við íbúð árásarmannsins í Toulouse í Frakklandi.
Lögreglan við íbúð árásarmannsins í Toulouse í Frakklandi. Reuters

Skothríð hefur heyrst við heimili skotárásarmannsins í Toulouse en lögreglan hefur umkringt heimili hans. Um klukkan átta í morgun að íslenskum tíma heyrðist skothríð á staðnum. Franski innanríkisráðherrann segir að árásarmaðurinn hafi sagt lögreglu að hann ætli að gefa sig fram síðdegis.

Lögreglan í Frakklandi ætlar að reyna að ná árásarmanninum, sem skaut 4 til bana í gyðingaskóla í borginni Toulouse, á lífi. Lögreglan hefur umkringt hús árásarmannsins í borginni og hefur rætt við hann.

Maðurinn, sem er 24 ára gamall, og heitir Mohammed Merah og er frá Alsír í Norður-Afríku, hefur sagst tilheyra al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum. Hann er sagður vopnaður hríðskotabyssu, sem og fleiri vopnum, í íbúðinni sem lögreglan hefur nú umkringt. Í morgun kastaði hann einni skammbyssu út um glugga á íbúð sinni.

Franski innanríkisráðherrann segir að lögreglan ætli sér að ná manninum á lífi en hann er grunaður um að hafa myrt sjö manns í Toulouse.

Maðurinn hefur sagt lögreglu að ástæða skotárásanna sé hefnd vegna meðferðar á palestínskum börnum. Tveir lögreglumenn hafa særst í umsátrinu í morgun.

Bróðir skotárásarmannsins hefur verið handtekinn en lögregla segir að hann sé þó ekki grunaður um árásirnar, maðurinn hafi verið einn að verki.

Mikill mannfjöldi er saman komin í Jerúsalem í Ísrael og fylgist með framvindu mála í Toulouse. Útför barnanna þriggja sem maðurinn skaut til bana í Toulouse fer fram í Jerúsalem á laugardag.

Fréttamaður Sky sjónvarpsstöðvarinnar segir að hjón sem búi í íbúðinni við hlið árásarmannsins hafi falið sig undir rúmi en íbúar í húsinu séu margir enn í íbúðum sínum, skelfingu lostnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert