Ryanair tapar fyrir Eyjafjallajökli

Enn er ekki útséð um afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli fyrir …
Enn er ekki útséð um afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli fyrir evrópsk flugfélög. mbl.is/Júlíus

Ryanair hefði átt að greiða hótelgistingu, máltíðir og samgöngur fyrir farþega sem voru strandaglópar þegar askan úr Eyjafjallajökli stöðvaði flugumferð í Evrópu. Þetta sagði aðallögfræðingur Evrópudómstólsins í Lúxemborg í dag, en þar fara fram málaferli farþega gegn Ryanair vegna eldgossins.

Hin írska Denise McDonagh kærði Ryanair eftir að félagið aflýsti flugi hennar þann 17. apríl 2010, eftir að eldgos hófst í Eyjafjallajökli. McDonagh var á heimleið til Dublin frá Portgúal en ferðin tafðist um heila viku og fer hún fram á Ryanair greiði henni 1.130 evrur, tæplega 190.000 kr. í bætur. Ryanair segist hinsvegar ekki geta borið ábyrgð á afleiðingum eldgossins þar sem það hafi enga stjórn haft á atburðarásinni.

Milljarðatap evrópskra flugfélaga

Þegar írsk yfirvöld úrskurðuðu Ryanair í vil sneri McDonagh sér til Evrópudómstólsins. Ekki hefur verið úrskurðað í málinu en samkvæmt áliti sem aðallögfræðingur dómstólsins, Yves Bot, sendi sér í dag ber flugfélögum, skv. reglum Evrópusambandsins, að aðstoða farþega sem eru strand vegna „óvenjulegra kringumstæðna". Eldgosið í Eyjafjallajökli flokkast sem slíkar kringumstæður, að mati Bot.

Álit aðallögfræðingsins er ekki bindandi en fram kemur á vef Bloomberg fréttaveitunnar að dómstóllinn úrskurði yfirleitt í samræmi við hana. Málið gæti því haft miklar afleiðingar fyrir evrópsk flugfélög enda má ætla að fleiri farþegar fylgi í kjölfar McDonagh vinni hún málið. 

Ryanair þurfti að aflýsa 9.400 flugferðum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Samanlagður kostnaður evrópskra flugfélaga vegna eldgossins nam a.m.k. 1,7 milljörðum Bandaríkjadala. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert