Tók voðaverkin upp á myndband

Frá Toulouse í dag.
Frá Toulouse í dag. Reuter

Mohammed Merah tók voðaverk sín upp á myndband og heyrist segja á einu þeirra: „Þú myrtir bræður mína, nú myrði ég þig.“ Franskur saksóknari staðfesti þetta í dag.

Hann sagði að Merah hefði tekið upp fjöldamorð sín í heild með myndavél sem hann festi framan á sig. Lögreglumenn hafa nú horft á myndböndin.

Við fyrstu árásina frá 11. mars heyrist hann segja á myndbandi: „Þú myrtir bræður mína, nú myrði ég,“ á sama tíma og hann hleypti af tveimur skotum á franskan hermann í Toulouse.

Í myndbandi af annarri árásinni sást hann skjóta tvo hermenn, aka burt á vélhjóli og æpa „Allahu Akbar“.

Francois Molins saksóknari staðfesti jafnframt að Merah hefði tekið upp fjöldamorð sín í gyðingaskóla í Toulouse á mánudag. Þar skaut hann kennara og þrjú börn til bana.

Meðan á umsátrinu um heimili hans stóð sagði Merah við lögreglumenn að hann hefði birt myndböndin á veraldarvefnum. Molins sagði þó að ekki væri vitað hvernig eða hvenær hann hefði gert það.

Merah var skotinn til bana í dag eftir 32 klukkustunda umsátur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert