Þrír nauðguðu átján ára stúlku

Oksana Makar sem liggur þungt haldin á sjúkrahúsi eftir hrottalega …
Oksana Makar sem liggur þungt haldin á sjúkrahúsi eftir hrottalega nauðgun. AP

Þrír ungir menn nauðguðu átján ára stúlku í Úkraínu og reyndu að kyrkja hana í kjölfarið. Þeir vöfðu nakinn líkama stúlkunnar inn í teppi og skildu hana eftir á yfirgefinni byggingarlóð þar sem þeir kveiktu í henni. Stúlkan komst lífs af. Lögreglan sleppti tveimur piltanna úr haldi en foreldrar þeirra höfðu tengsl við stjórnvöld í landinu.

Málið hefur vakið mikla athygli í Úkraínu og margir gagnrýna þá miklu spillingu sem er í dóms- og stjórnkerfinu. Þekkt eru dæmi um að fólk sem á peninga eða tengist stjórnmálamönnum komist upp með glæpi, hvort sem er að komast undan umferðarsektum eða alvarlegri brot.

Mikil mótmæli brutust út í landinu er lögreglan sleppti piltunum tveimur og hefur hún nú aftur handtekið þá og ákært alla þrjá mennina fyrir nauðgun. Einn mannanna er einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Stúlkan, Oksana Makar, er enn á sjúkrahúsi og ástand hennar er alvarlegt. Líkami hennar er mjög illa brenndur og lungu hennar stórsködduð. Þá var annar handleggur hennar tekinn af vegna sýkingar.

Móðir Oksönu segir hana hafa verið glaðlega unga stúlku sem hafi átt marga góða vini. Oksana á heima í borginni Mykolaiv sem er um 300 kílómetra suður af höfuðborginni Kænugarði.

En líf Oksönu umbreyttist á einni nóttu, 9. mars síðastliðinn er hún hitti tvo unga menn á bar og þeir buðu henni að slást í för með þeim. Einn mannanna hefur sagt að þremenningarnir hafi átt mök við Oksönu og játar að í minnsta kosti eitt skiptið hafi þeir nauðgað henni.

Myndband af yfirheyrslunni yfir manninum var sýnt í sjónvarpi í Úkraínu. Þar segir maðurinn að Oksana hafi barist um og að hann hafi nauðgað henni. Eftir nauðgunina hótaði Oksana að hringja í lögregluna og reyndi maðurinn þá að drepa hana. Missti hún meðvitund við það. Maðurinn játar að þeir hafi þá vafið henni innan í teppi og skilið hana eftir á byggingarsvæði. Þeir hafi hent púðum ofan á hana og kveikt í.

Þá hefur komið fram að mennirnir hafi farið heim, skipt um föt, fengið sér vodka og að borða á skyndibitastað. „Við settumst niður, fengum okkur að reykja og fórum svo hver í sína áttina,“ segir maðurinn.

Vegfarandi kom auga á ungu stúlkuna á byggingarsvæðinu og fljótlega voru mennirnir þrír handteknir. Tveir þeirra voru þó látnir lausir fljótlega.

Innanríkisráðherra Úkraínu, Vitaly Zakharchenko, hefur staðfest að foreldrar piltanna sem látnir voru lausir, eru fyrrverandi starfsmenn borgarstjórnar. Hefur móðir Oksönu gagnrýnt lögreglu fyrir að hafa sleppt piltunum vegna tengsla foreldra þeirra við stjórnvöld.

Hún hefur notið mikils stuðnings í landinu. „Hún elskaði lífið svo innilega, en þeir eyðilögðu líkama hennar, sál og anda,“ segir móðir Oksönu. „Þeir eyðilögðu barnið mitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka