Um 400 öfgamenn sem fengið hafa þjálfun til hryðjuverka hjá al-Qaida líkt og Mohamed Merah, raðmorðinginn í Toulouse, eru í Evrópu. Þetta áætlar sérfræðingur Evrópusambandsins í baráttunni gegn hryðjuverkum. Merah fékk yfir 20 byssuskot lögreglu í líkamann áður en hann lést.
Merah, sem var 23 ára gamall, var franskur ríkisborgari af alsírsku bergi brotinn. Í samningaviðræðum sínum við lögreglu áður en hann var drepinn sagði Merah að hann hefði verið í sambandi við al-Qaeda og farið margar ferðir, bæði til Afganistan og Pakistan. Hann myrti sjö manneskjur á átta dögum áður en hann var stöðvaður.
Sérfræðingur ESB í baráttunni gegn hryðjuverkum, Gilles de Kerchove, segir í samtali við AP að Merah falli í flokk þeirra sem kallaðir hafa verið „einsamlir úlfar", þ.e. hryðjuverkamenn sem skipuleggja og framkvæma hryðjuverk einir. Bæði Anders Behring Breivik og sænsk-íraski maðurinn sem framdi misheppnaða sjálfsmorðssprengjuárás í Stokkhólmi í desember 2010 falla líka í þennan flokk.
Fylgst með þeim flestum
„Við áætlum að það séu um 400 menn af þessum toga um alla Evrópu," hefur AP eftir Kerchove. Hann leggur áherslu á að evrópsk lögregluyfirvöld fylgist með þeim öllum. Flesta þessara „úlfa" er, að sögn Kerchov, að finna í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og hugsanlega í Belgíu.
„Einsamlir úlfar verða sífellt fleiri, því kjarnastarfsemi al-Qaeda í Evrópu hefur veikst mikið undanfarin þrjú eða fjögur ár," segir Kerchove. Hann er þeirrar skoðunar að Evrópusambandið allt ætti að taka upp lög sem þegar eru í gildi í Þýskalandi og Austurríki, og banna mönnum að ferðast til annarra landa til að sækja þjálfunarbúðir öfgafullra íslamista. Nicolas Sarkozy forseti Frakklands hefur lýst því yfir að hann vilji innleiða þessi lög í Frakklandi.
Kerchove segir einnig að mikilvægt sé að beina sjónum nánar að afleiðingum hryðjuverka með því að gefa fórnarlömbum þeirra rödd. „Þau eiga skilið að við hlustum á þau. Við fréttum í sífellu af árásarmönnunum, en mun minna af fórnarlömbunum og afleiðingunum fyrir fjölskyldur þeirra."