Sprengjum rigndi yfir borgina Homs í Sýrlandi í dag og virðast öryggissveitir stjórnvalda hafa hert sókn sína gegn mótmælendum. 16 almennir borgarar féllu í landinu í dag að sögn mannréttindasamtaka, en heildartala látinna eftir daginn er 31. Í gær létust a.m.k. 24.
Fregnir herma að gamli bærinn í Homs auk úthverfanna Hamidiyeh, Khaldiyeh þar sem mótmælendur hafast við hafi orðið fyrir sérstaklega hörðum sprengjuárásum í dag. Samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem eiga höfuðstöðvar í Bretlandi, segja að fjórir almennir borgarar hafi fallið fyrir hendi öryggissveita stjórnvalda í borginni. Þar á meðal sé eitt ungbarn og ein ung stúlka, sem létu lífið í vélbyssuskothríð.
Fleiri féllu í öðrum landshlutum, þar á meðal í bænum Nawa í Suður-Sýrlandi, þar sem skriðdrekar fóru um göturnar að sögn sjónarvotta og harðir bardagar brutust út milli öryggissveita stjórnvalda og liðhlaupa úr öryggissveitunum. Þrír hermenn og átta uppreisnarmenn féllu. LCC, stærsti uppreisnarhópurinn í Sýrlandi, segir að mikið beri á liðhlaupi úr röðum hermanna í Nawa, en herinn bregðist hart við og afleiðingarnar séu „hörð átök og villimannsleg morð af hálfu hermanna“.
Það var í Nawa sem uppreisnin gegn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta braust fyrst út í mars árið 2011. Á því ári sem liðið er síðan hafa a.m.k. 9.100 manns látið lífið í átökum.