Lögreglan á Spáni hefur handtekið 22 rúmenska karlmenn sem grunaðir eru um að halda hópi kvenna föngnum ssem kynlífsþrælum, þvingað þær í vændi og húðflúrað á þær strikamerki. Lögreglan kallar glæpagengið strikamerkjadólgana.
19 ára gamalli stúlku var nýlega bjargað úr haldi mannanna. Unga konan hafði verið hýdd, hlekkjuð við ofn og hárið rakað af höfði hennar og augabrúnum. Að auki var hún með strikamerki húðflúrað á úlnliðinn með verðmerkingu upp á 2.000 evrur. Spænska dagblaðið El País segir frá þessu í dag.
Átti að vinna af sér skuld
Lögreglan telur að verðmerkingin hafi átt að vera merki um „eignarhald" yfir konunum, en verðmerkingin tákni jafnframt meinta skuld stúlkunnar við glæpagengið sem þeir hafi ætlað að láta hana „vinna af sér".
Mennirnir, sem nú eru í haldi, eru grunaðir um að hafa þvingað konur til að stunda vændi og láta eftir stóran hluta af tekjum fyrir það í þeirra hendur. Alls hefur lögreglan á Spáni lagt hald á 140.000 evrur í reiðufé í tengslum við málið, en einnig gullskartgripi og fimm bíla, þar af þrjár s.k. lúxusbifreiðar. Þá fundust einni skotvopn, sverð og sveðjur.