Merkel: „Stórslys“ að sleppa Grikkjum út

Angela Merkel
Angela Merkel Reuters

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að það yrði „stórslys“ að leyfa Grikklandi að yfirgefa evrusvæðið vegna skuldavanda þess. Þetta segir Merkel í sjónvarpsviðtali við BBC, sem birt verður á morgun.

Í viðtalinu segir Merkel að Grikkir eigi „langa og erfiða leið fyrir höndum“ á bataveginum en að það yrðu „gríðarleg pólitísk mistök að leyfa Grikkjum að fara“ úr myntsambandinu. „Við höfum tekið þá ákvörðun að vera í myntsambandi. Það er ekki aðeins efnahagsleg ákvörðun, heldur pólitísk,“ segir Merkel, sem talar þýsku í viðtalinu í gegnum túlk.

„Það væri stórslys ef við segðum við eitt af þeim ríkjum sem hafa ákveðið að vera með okkur: „Við viljum ekki hafa þig lengur.“ Merkel bendir á að samningar Evrópusambandsins heimili heldur ekki útgöngu af evrusvæðinu. „Fólk um allan heim myndi þá spyrja: „Hver fer næstur?“ Evrusvæðið myndi veikjast ótrúlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert