Tyrknesk sjampóauglýsing með Adolf Hitler í aðalhlutverki hefur valdið talsverðum usla og verið gagnrýnd harðlega af gyðingum um allan heim, sem krefjast þess að auglýsingin verði tekin úr umferð.
„Það er með öllu óásættanlegt að nota Hitler, sem er mest sláandi dæmi mannkynssögunnar um grimmd og villimennsku,“ segir í yfirlýsingu frá Félagi tyrkneskra gyðinga. Auglýsingin, sem er 12 sekúndna löng, hefur verið í sýningu í Tyrklandi síðan í síðustu viku.
Sjampóið sem um ræðir nefnist Biomen og er ætlað fyrir karlmenn. Auglýsingin sýnir Hitler flytja mikla hitaræðu, þar sem hann hvetur viðskiptavini til að kaupa vöruna þar sem hún sé 100 prósent karlmanns-sjampó. „Ef þú klæðist ekki kvenmannskjól ættirðu ekki að nota sjampóið hennar heldur,“ er Hitler látinn segja í auglýsingunni.
Það er ekki bara gyðingum í Tyrklandi sem er misboðið. Bandarísku samtökin Anti-Defamation League, sem berjast gegn gyðingahatri um allan heim, gagnrýna auglýsinguna einnig.
„Að nota Hitler, sem bar ábyrgð á fjöldamorðum á 6 milljónum gyðinga og milljónum annarra í helförinni, til að selja sjampó er viðbjóðsleg og sorgleg markaðsbrella,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum. „Það er móðgun við minningu þeirra sem létu lífið í helförinni, við þá sem lifðu af og þá sem börðust til að sigra nasista.“
Auglýsinguna má sjá hér að neðan: