Skotheldur glerveggur fyrir Breivik

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik í dómssal.
Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik í dómssal. Reuters

Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik mun sitja með bakið upp við skotheldan glervegg þegar réttarhöldin yfir honum hefjast í Ósló í apríl. Verið er að undirbúa réttarsalinn þar sem öryggisstigið verður hærra en nokkru sinni.

Réttarhöldin yfir Breivik hefjast þann 16. apríl. Samkvæmt núverandi dagskrá er gert ráð fyrir því að þau standi í um 2 mánuði, fram til 22. júní.  Á meðan þeim stendur munu vopnaðir lögreglumenn standa vörð inni í dómhúsinu og utan við það og settur verður upp glerveggur í réttarsalnum, sem að öllum líkindum verður skotheldur, að sögn Aftenposten. Breivik og verjendateymi hans verða handan veggjarins. 

Að auki hefur undanfarna daga verið unnið að því að setja upp tjöld sem unnt verður að fella til að loka af innsýn í salinn. „Við óttumst ekkert, en við nálgumst þetta af fagmennsku og búum okkur fyrir mögulegar uppákomur,“ hefur Aftenposten eftir lögreglustjóranum, Johan Fredriksen. 

Réttarsalurinn er 250 fermetrar og verður 204 áhorfendum og blaðamönnum hleypt í salinn. Breivik verður ekið í brynvörðum bíl til og frá Ila-fangelsinu daglega á meðan réttarhöldin standa, í fylgd vopnaðra lögreglumanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert