Eiginkona bandaríska hermannsins sem ákærður hefur verið fyrir morð á 17 óbreyttum borgurum í Kandahar í Afganistan, segir ákærurnar „ótrúlegar.“
Karilyn Bales, eiginkona Roberts Bales, segir eiginmann sinn mjög hugrakkan. Hún segir mann sinn hafa gengið í herinn eftir árásirnar á tvíburaturnana 11. september árið 2001. Vildi hann verja land sitt og fjölskyldu.
Samkvæmt gögnum málsins fór Bales út af herstöð sinni í Kandahar, gekk inn í hús í nágrenninu og skaut 17 manns til bana, þar af níu börn.
„Hann elskar börn, hann er eins og stórt barn sjálfur,“ segir eiginkonan um Bales. „Ég hef ekki hugmynd hvað hefur gerst en hann myndi ekki... hann elskar börn og hann myndi ekki gera þetta.“
Nú er talið að Bales hafi farið í tvær árásarferðir frá herstöð sinni. Hann hafi yfirgefið herstöðina, skotið á fólk, snúið aftur til herstöðvarinnar til þess eins að yfirgefa hana aftur og halda drápunum áfram. Hann er sagður hafa gefist upp án mótspyrnu.
Robert Bales er 38 ára gamall tveggja barna faðir. Honum er nú haldið í herfangelsi í Kansas.
Karilyn Bales hefur talað við eiginmann sinn tvisvar sinnum síðan hann var settur í gæsluvarðhald. Hann hringdi í eiginkonuna stuttu eftir fjöldamorðin. Karilyn segir þau hafa talað um fjölskyldumál og þau hafi játað ást sína hvort á öðru.
Robert Bales var í fjórða sinn á stríðssvæði er hann framdi verknaðinn. Hann hefur þrisvar sinnum verið í Írak en einu sinni í Afganistan.
Hann er yngstur fimm bræðra og ólst upp í úthverfi Nordwood í Cincinnati Ohio. Honum hefur verið lýst sem glaðlyndum og góðum manni.