Foreldrar hins 17 ára Trayvons Martins, sem var skotinn til bana þar sem hann var á gangi í bænum Sanford í Flórída fyrir mánuði, fluttu mál sitt fyrir Bandaríkjaþingi í dag og kröfðust réttlætis.
Dauði piltsins hefur vakið mikla reiði víða í Bandaríkjunum og ýft upp gömul sár er tengjast kynþáttamisrétti. „Dauði hans var ekki án tilgangs. Takk fyrir að hjálpa okkur að standa upprétt og heiðra minningu Trayvons. Við munum halda áfram að berjast fyrir réttlæti,“ sagði faðir Trayvons, Tracy Martin, á þinginu, en þar fór fram umræða um staðalmyndir kynþátta og hatursglæpi, sem þingmenn demókrata stóðu fyrir.
„Þetta mál sýnir okkur það misrétti sem er á milli kynþátta, ekki bara fordóma gagnvart unglingum,“ sagði mannréttindafrömuðurinn Jesse James í heimabæ Trayvons, Sanford, í gær, en þar fór fram ganga til heiðurs piltinum.
Trayvon Martin var myrtur af George Zimmerman, sem var við nágrannavörslu er hann sá piltinn á ferð. Zimmerman er nú í felum.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur krafist ítarlegrar rannsóknar á málinu og sagði að bandaríska þjóðin þyrfti að skoða í sálu sína. „Ef ég ætti son, þá liti hann líklega út eins og Trayvon,“ sagði Obama.