Fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, hefur viðurkennt fyrir lögreglu að hann hafi kallað ungar konur sem hafa verið gestir í svallveislum sem hann hefur tekið þátt í, „búnað“ (matériel) í sms-skilaboðum.
Þetta kemur fram í frétt blaðsins Le Monde sem hefur undir höndum trúnaðarupplýsingar um það sem kom fram við yfirheyrslur yfir Strauss-Kahn hjá lögreglu.
Lögmenn Strauss-Kahn brugðust hart við lekanum og sökuðu Le Monde um að hafa valið ummælin sérstaklega úr skjölunum. Hóta þeir málsókn vegna lekans sem þeir segja brot á réttindum skjólstæðings síns.
Strauss-Kahn viðurkennir að hafa tekið þátt í svallveislum í nokkrum borgum en neitar því að hann hafi vitað að konur sem mættu í veislurnar hafi fengið greitt fyrir að mæta.