Selinum Evu hefur verið bjargað tvisvar, annars vegar við strendur Þýskalands og hinsvegar við strendur Englands. Sérfræðingar vilja að flogið verði með Evu til Íslands en óttast að hér á landi verði ekki hægt að aðstoða selinn lendi hann í ógöngum á ný.
Frá þessu segir á vef BBC. Talið er að Eva hafi fæðst á hafís í apríl í fyrra, einhvers staðar á milli Íslands og Kanada. Hún var vannærð þegar starfsmenn verndarsvæðis í Friedrichskoog í Þýskalandi komu henni til bjargar. Þeir gáfu henni Evu-nafnið, nóg af fæði og festu á hana staðsetningartæki. Eftir að Evu var sleppt í október sýndi tækið að hún synti til Skotlands og Orkneyja og benti allt til þess að hún væri á leið til Íslands. Hún sneri hinsvegar við og stefndi að austurströnd Englands. Þar var henni bjargað í desember af starfsfólki Natureland í Skegness, sem er verndarsvæði fyrir seli.
Vonast er til að hægt verði að sleppa Evu í byrjun sumars. Cheryl Yeadon, starfsmaður Natureland, segir að leitað hafi verið að hentugu verndarsvæði fyrir seli á Íslandi en það ekki fundist. „Við höfðum hugsað okkur að reyna að sleppa henni nærri verndarsvæði því ef hún spjarar sig ekki ein þá gæti einhver hjálpað henni,“ segir Yeadon en talið er líklegast að Eva gæti þrifist við strendur Íslands því þar sé að finna það fiskmeti sem hún sé vön að borða. Þegar komi að því að fjölga sér þurfi Eva þar að auki að kæpa á hafís.