Að sögn Geirs Lippestad, verjanda norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breiviks, mun vörn hans miðast við að sýna fram á sakhæfi hans, en deilt hefur verið um hvort Breivik eigi við geðræn vandamál að stríða eða hvort hann sé sakhæfur. Breivik mun óttast að vera dæmdur ósakhæfur og leggur nú mikið kapp á að sýna fram á hið gagnstæða.
Réttarhöldin hefjast 16. apríl.
Hann telur að sálfræðingarnir sem mátu hann ósakhæfan hafi verið undir pólitískum þrýstingi við að komast að þeirri niðurstöðu og hann vinnur nú að því að skrifa greinargerð þar sem hann gagnrýnir það mat. Lippestad segir Breivik halda því fram að 80% af því sem kemur fram í skýrslu sálfræðinganna sé rangt og hann hefur komið fram með fimm mismunandi kenningar um hvers vegna hann sé sagður ósakhæfur.
Samkvæmt frétt norska ríkissjónvarpsins, NRK, er greinargerð Breiviks nokkur hundruð síður og hann vill dreifa henni til fjölmiðla. Að sögn Lippestad eru engin vandkvæði á því og mun Breivik því senda hana á næstu dögum.
Breivik hefur beðið um að móðir hans verði ekki kölluð sem vitni verjanda og hefur Lippestad fallist á þá kröfu. Ekki liggur enn fyrir hvort saksóknari hyggist láta hana bera vitni, en vitnisburður hennar er talinn geta varpað ljósi á ástæður þess að Breivik framdi voðaverk sín.
Breivik bjó hjá móður sinni á fullorðinsárum, frá 2006 til 2011.
Næsta víst þykir að Breivik verði dæmdur sekur og verði þá vistaður annaðhvort í fangelsi eða í öryggisgæslu. Lífstíðarfangelsi er ekki til í Noregi.