Vill þróa evrópskt einkenni

Evrópuþingið í Strasbourg.
Evrópuþingið í Strasbourg. Ljósmynd/JPlogan

Evrópuþingið er reyna að þróa evrópskt einkenni (e. European identity) en háttsettir embættismenn hjá Evrópusambandinu telja það einu leiðina til þess að tryggja að sambandið verði áfram til. Fjallað er um þetta á fréttavefnum Euobserver.com í dag.

Vitnað er til orða framkvæmdastjóra Evrópuþingsins, Klaus Welle, í ræðu sem hann flutti á fundi í gær á vegum hugveitunnar Centre for European Policy Studies um að ríki Evrópusambandsins hafi lagt mikla áherslu á að byggja upp eigið þjóðerni.

„Ef við viljum byggja varanlegt samband samstöðu þurfum við einnig að leggja áherslu á evrópskt einkenni. Við þurfum að skilja söguna sem evrópska sögu en ekki aðeins sem samantekt af sögum þjóðríkjanna,“ sagði Welle.

Hann skírskotaði til heimalands síns Þýskalands og sagði Þjóðverja tala eins og landið hefði alltaf verið til þegar staðreyndin væri sú að þýska ríkið eins og það er þekkt í dag hafi verið búið til árið 1871. Fyrir þann tíma hafi verið til fjöldi þýskra ríkja þar sem Þýskaland væri í dag.

„Við endurhönnuðum sögu okkar eins og við hefðum alltaf verið þjóðríki sem er alfarið rangt og ósatt,“ sagði Welle ennfremur og bætti við: „Til þess að koma stöðugleika fyrir þjóðernið höfum við sett á laggirnar söfn, við höfum búið til námskrár fyrir skóla, við höfum endurhannað sögu þjóðarinnar.“

Fram kemur í fréttinni að Evrópuþingið sé nú að takast á hendur hliðstætt verkefni meðal annars með því að koma á fót söfnum um evrópska sögu og einkenni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert