Búist við átökum í Árósum í dag

Frá Árósum
Frá Árósum Morgunblaðið/Una

Búist er við háværum mótmælum og jafnvel átökum í Árósum í Danmörku í dag, en þar hafa samtök sem eru á móti búsetu múslíma í landinu boðað  til mótmælafundar og á sama tíma munu samtök sem styðja fjölmenningarsamfélag halda fund.

Hundruð hægriöfgamanna víða að úr Evrópu hafa boðað komu sína.

Talsmenn hvorra tveggja samtakanna staðhæfa að reynt verði að komast hjá átökum í lengstu lög, en upphaflega var boðað til fundar af hægriöfgamönnum og gripu talsmenn fjölmenningarsamfélagsins þá til þess ráðs að boða til fundar á sama tíma. Fundirnir verða þó ekki á sama stað. 

Annars vegar er um að ræða samtökin Danish Defence League, sem eru samtök sem eru á móti búsetu múslíma í landinu, og hins vegar Aarhus for Mangfoldighed, sem eru samtök sem styðja fjölmenningarsamfélag, og Antifascistisk Aktion, sem eru af svipuðum toga.

Philip Traulsen, talsmaður Danish Defence League, DDL, segir í samtali við vefsíðu danska dagblaðsins Jyllands-Posten að samtökin vænti þess að geta haldið fund sinn í ró og næði og yfirgefið Árósa að því loknu. „Við óskum ekki eftir átökum, en við áskiljum okkur rétt til að koma skoðunum okkar á framfæri og við munum grípa til varna ef á okkur verður ráðist.“

Auk danskra meðlima í DDL hafa stuðningsmenn þeirra frá öðrum Evrópulöndum tilkynnt komu sína á mótmælafundinn, þar á meðal frá Englandi og Þýskalandi.

„Þetta verður friðsamur dagur og við höfum komið þeim skilaboðum áleiðis,“ segir Per Jensen, talsmaður samtakanna Aarhus for Mangfoldighed. „Ég geri ráð fyrir að Antifascistisk Aktion viti af því. Við höfum gert það sem okkur er mögulegt í stöðunni, við höfum rætt málin og ég á ekki von á því að ástandið fari úr böndunum.“

Búist er við að andfasísk samtök, á borð við bresku samtökin Unite Against Fascism, muni taka þátt í fundinum.

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglunni vegna þessa og er helsta ógnin talin stafa af þeim hugsunarhætti „að allt sé leyfilegt til að verja málstaðinn“.

„Þessi atburður sem fyrirhugaður er í Árósum er dæmi um hvernig öfgasamtök starfa saman á alþjóðagrundvelli og landamæri eru þeim engin fyrirstaða,“ segir Jakob Scharf, lögreglumaður hjá dönsku rannsóknarlögreglunni.

Trúarleiðtogar múslíma í Árósum hafa ráðlagt trúsystkinum sínum að halda sig sem fjærst mótmælunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka