Auðug ríki við Persaflóa ætla að greiða uppreisnarmönnum í Sýrlandi laun. Þetta kom fram á fundi „Vina Sýrlands“ í dag, en það er bandalag meira en 70 ríkja og samtaka, bæði Arabaríkja og vestrænna þjóða.
Ríkin kröfðust þess á fundi sínum í Istanbúl í Tyrklandi í dag að Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, yrði gefinn tímafrestur til að mæta þeim kröfum sem Kofi Annan, sérlegur erindreki í málefnum Sýrlands hefur sett fram.
Þau hvetja Sameinuðu þjóðirnar til að grípa inn í ofbeldið í landinu, en segjast ekki munu sjá uppreisnarmönnum fyrir vopnum til að geta barist við stjórnarher landsins.
Í tillögum Annans felst að bundinn verði endi á ofbeldið í landinu, tveggja klukkustunda vopnahlé á hverjum degi svo unnt verði að veita mannúðaraðstoð og að friðargæsluliðar fái aðgang að öllum átakasvæðum. Að auki verði unnið að lýðræðisumbótum, almenningur fái rétt til að mótmæla á friðsamlegan hátt og fólk sem hefur verið fangelsað af handahófi án dóms og laga verði látið laust.
Assad sagði á þriðjudaginn að hann samþykkti tillögur Annans um að ofbeldi linni í landinu, en engu að síður hefur stjórnarherinn haldið áfram að ráðast á óbreytta borgara.
Forsætisráðherra Tyrkja, Recep Tayyip Erdogan, sagði að yrðu sýrlensk yfirvöld ekki við þessum tilmælum, þá ætti alþjóðasamfélagið ekki annars úrkosta en að viðurkenna rétt almennra borgara til að grípa til vopna í sjálfsvörn gegn yfirvöldum.
Vinir Sýrlands viðurkenndu Þjóðarráð Sýrlands, sem eru samtök byltingarmanna og mótmælenda, sem lögmæt yfirvöld í landinu. Talsmaður þeirra sagði á ráðstefnunni í dag að samtökin vildu að unnið væri að tafarlausri lausn á ofbeldisöldunni í landinu. Hann fór fram á hergögn og aukinn alþjóðlegan stuðning.
Niðurstaðan varð að Persaflóaríkin munu styðja uppreisnarmenn um milljónir Bandaríkjadollara. Meðal þeirra ríkja sem um ræðir eru Katar og Sádi-Arabía.
Sýrlensk yfirvöld fordæma fundinn og segja hann vera sjónarspil. „Aðeins þeir, sem eru einfaldir og vilja sjá heiminn með sömu augum og Bandaríkjamenn, trúa því að þessi ráðstefna hafi verið haldin með hagsmuni sýrlensku þjóðarinnar í huga,“ sagði í dagblaðinu Al-Baath, sem er málgagn flokks Assads forseta.