Bætur fyrir Þorskastríð í grýttan jarðveg

Ásiglingartilraun breska togarans Grimsby Town á varðskipið Óðinn 12.september 1958 …
Ásiglingartilraun breska togarans Grimsby Town á varðskipið Óðinn 12.september 1958 við Hvalsbak. Ljósmynd/Garðar Pálsson

Skoskir sjómenn sem misstu lifibrauð sitt í Þorskastríðunum hafa nú fengið afsökunarbeiðni frá breskum stjórnvöldum fyrir misheppnaða bótaáætlun vegna tjóns þeirra. Haft er eftir einum þeirra, sem kominn er á eftirlaun, að of seint sé í rassinn gripið og afsökunarbeiðnin sé móðgun.

Sjómennirnir sem verst fóru út úr sigri Íslendinga í Þorskastríðunum fengu fyrst árið 2009 bætur frá breskum stjórnvöldum, upp á 20.000 pund eða um fjórar milljónir íslenskra króna. Alla tíð síðan hafa sjómennirnir mótmælt framkvæmd bótagreiðslnanna og í gær viðurkenndu bresk stjórnvöld loks að illa hefði verið staðið að málum.

Breski fréttavefurinn Daily Record segir að sumir sjómannanna hafi fengið þau svör að þeir fullnægðu ekki skilyrðum til að fá greiddar bætur, og aðrir fengu greitt mun minna en þeir áttu von á. Bresk stjórnvöld hyggjast nú hafa samband við u.þ.b. 2.500 sjómenn og bjóða þeim 1.000 pund í bætur. 

Haft er eftir talsmanni skoska sjávarútvegsráðuneytisins að „réttlæti“ sé nú náð fyrir sjómennina sem um ræðir. Hinn 83 ára gamli Charles Grimmer frá Aberdeen, sem var handtekinn af Íslendingum í Þorskastríðunum, segir hins vegar að þetta sé allt of seint í rassinn gripið. 

„Þetta er bara móðgun, ekki bara við togarasjómenn í Aberdeen heldur alla breska sjómenn. Flestir þessara manna eru dánir. Ég man bara eftir örfáum mönnum sem enn eru á lífi og fá að sjá einhverja peninga.“

Forsíður erlendra dagblaða í Þorskastríðinu.
Forsíður erlendra dagblaða í Þorskastríðinu. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert