Dómari mun í næstu viku hlusta á rök lögmanns fjöldamorðingjans Charles Mansons fyrir því að hann verði látinn laus. Lögreglan birti í dag nýja mynd af Manson en hann er orðinn 77 ára gamall.
Charles Manson eða öllu heldur hin svokallaða fjölskylda hans framdi níu morð í Los Angeles árið 1969. Meðal fórnarlamba þeirra var leikkonan Sharon Tate, eiginkona leikstjórans Romans Polanskis. Hún var gengin átta og hálfan mánuð með barn þeirra. Tate var myrt með sextán hnífstungum.
Manson var dæmdur til dauða árið 1971, en dauðadómnum var breytt í ævilangt fangelsi þegar dauðarefsingar voru afnumdar í Kaliforníuríki árið 1972. Hann hefur 11 sinnum farið fram á að verða sleppt úr haldi, en því hefur ávallt verið hafnað. Hinn 11. apríl mun dómari hlusta á rök lögmanns hans fyrir beiðni um að verða sleppt úr haldi.