Árleg krossfesting á Filippseyjum

Fjöldi manna fylgdist með á Filippseyjum í dag þegar hópur kaþólikka fetaði í fótspor Jesú Krists og lét krossfesta sig í blóðugri athöfn. Fólkið stundar einnig sjálfshýðingu, en markmiðið er að upplifa þjáningar Krists á eigin skinni og iðrast. Kaþólska kirkjan er andvíg athöfninni sem engu að síður fer fram á hverju ári.

Rúmlega 10 manns tóku þátt í athöfninni í dag fyrir framan þúsundir áhorfenda, í þorpinu Cutud norður af höfuðborginni Manila. Fimm cm langir naglar, sem baðaðir eru í áfengisanda, eru reknir í gegnum hendur og fætur fólksins og það reist upp á trékross í steikjandi hita. 

„Jafnvel þótt kirkjan banni þetta höldum við áfram. Þeir ættu að skilja að við verðum að halda í heiðri okkar eigin sið um leið og við höldum í heiðri predikanir þeirra,“ sagði einn hinna krossfestu í samtali við Reuters. 

Margir ferðast langt að til að fylgjast með krossfestingunni og stundum taka ferðamenn jafnvel þátt í henni. Í ár var m.a. hollenskur ferðaþáttastjórnandi á staðnum. Hún prófaði sig við að bera þungan trékrossinn á bakinu en gafst fljótlega upp. „Við reyndum að þjást eins og þetta fólk en það er frekar erfitt. Við urðum miðpunktur athyglinnar í staðinn fyrir þau.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka