„Þetta eru foreldrar þínir að brenna“

Hédi Fried hefur skrifað bækur um dvöl sína í útrýmingarbúðum …
Hédi Fried hefur skrifað bækur um dvöl sína í útrýmingarbúðum nasista. Hún er nú 88 ára.

„Sjáðu svarta reykinn sem leggur frá strompinum þarna, þetta eru foreldrar þínir að brenna.“ Svona er ein fyrsta minning Hédi Fried frá Auschwitz-útrýmingarbúðunum í Póllandi sem voru heimili hennar í meira en eitt ár. Foreldrar hennar voru teknir af lífi nær samstundis við komuna til Auschwitz en sjálf var hún og Livi systir hennar það heppnar, ef svo má að orði komast, að vera valdar til þrælkunarvinnu í Bergen-Belsen-búðunum í Þýskalandi. Hjalti Geir Erlendsson, blaðamaður mbl.is, hlýddi á frásögn Fried í Uppsalaháskóla í Svíþjóð nýverið.

Hédi Fried fæddist í Rúmeníu árið 1924. Í seinni tíð hefur hún helgað líf sitt því að hjálpa fólki sem lent hefur í stóráföllum. Þá hefur hún einnig skrifað nokkrar bækur um reynslu sína sem gyðingur í síðari heimsstyrjöldinni og eftirköst Helfararinnar. Ein bókanna kom út á ensku árið 1990 og ber nafnið „The Road to Auschwitz. Fragments of a Life“. Þá er hún meðlimur í alþjóðlegum nefndum um þjóðarmorð.

Hédi Fried er sálfræðingur að mennt, talar nokkur tungumál og þrátt fyrir að vera orðin 88 ára gömul ferðast hún enn um heiminn til að segja sögu sína. Sögu sem innan skamms verður aðeins sögð á textaformi eða með kvikmyndum. Það er henni hjartans mál að Helförin og aðdragandi hennar falli ekki í gleymsku því án þekkingar á sögunni muni hún endurtaka sig. Hver sem fórnarlömbin verða.

Nýlega flutti Hédi fyrirlestur við lagadeild Uppsalaháskóla í Svíþjóð þar sem greinarhöfundur var viðstaddur. Áður en hún hóf mál sitt bað hún viðstadda vinsamlegast að klappa ekki að fyrirlestrinum loknum. Það væri einfaldlega ekki við hæfi.

„Brjálæðingur í Þýskalandi“

„Þegar ég var ung var fólk alveg eins og nú og lífið gekk sinn vanagang,“ segir Hédi. Í litla bænum sem hún bjó í í Transilvaníu bjó fólk með mismunandi skoðanir og af nokkrum trúarbrögðum í sátt; jafnt kaþólikkar, orþódox trúarmenn og gyðingar. „Fólk vann sína vinnu, börn léku sér á götunum og unglingarnir fóru saman í bíó og á böll og ekkert benti til þess sem koma skyldi.“

En á stuttum tíma umturnaðist allt. Hédi man vel þegar hún heyrði fyrst talað um Hitler en þá var hún aðeins barn. Hún heyrði þrumuræðu hans í útvarpinu og spurði móður sína hver þetta væri. Hún svaraði: „Æ, þetta er einhver brjálæðingur í Þýskalandi, það er langt í burtu, þú þarft ekki að hafa áhyggjur.“ Hún hélt því áfram að leika sér en nokkrum árum síðar hafði þessi Hitler í Þýskalandi og hans fylgjendur gjörsamlega rústað lífi litlu fjölskyldunnar frá Rúmeníu. Vinir og nágrannar höfðu snúist gegn þeim og hræðsla og tortryggni réð ríkjum.

Fyrstu ár stríðsins höfðu lítil bein áhrif á Hédi og hennar fjölskyldu en þegar líða tók á sókn nasista í Evrópu fóru gyðingar í Rúmeníu að finna fyrir auknum fordómum í sinn garð. Sérstaklega eftir að Nürnberg-lögin tóku gildi sem bönnuðu m.a. öll viðskipti við gyðinga.

„Fólk er fljótt að aðlagast breytingum jafnvel þótt þær séu til hins verra og við litum alltaf á þetta sem tímabundið ástand.“ Svona var hugsunarhátturinn, jafnvel þótt fjölskyldunni hefði verið smalað ásamt öðrum gyðingum í gettó. Síðan var það í mars árið 1944 að fjölskyldan var send í burtu með lest. Þau höfðu ekki hugmynd um hvert ferðinni var heitið en ferðalagið tók þrjá daga án vatns hvað þá matar.

„Við vorum ekki einu sinni fangar, við vorum meðhöndluð á verri máta en dýr.“ Áfangastaðurinn reyndist vera Auschwitz. Hédi varði tvítugsafmæli sínu í Auschwitz og Livi systir hennar varð 15 ára á þessum hræðilega stað. Eftir rúmlega árs dvöl í Auschwitz voru þær valdar til þrælkunarvinnu í Bergen-Belsen þar sem vistin var lítið skárri og tíminn stóð í stað, hver dagur var öðrum líkur.

Á síðustu dögum stríðsins reyndu nasistar í örvæntingu að drepa alla fanga sína markvisst í þeirri von að eyða sönnunargögnum um grimmdarverkin. Hédi var enn og aftur flutt með lest, nokkurra daga ferð, en líklega var ætlunin að senda hana og aðra fanga í gasklefana. Meðan á lestarferðinni stóð gáfust Þjóðverjar upp og stríðinu lauk. Hédi og Livi var bjargað af bandamönnum sem komu þeim í hendur Rauða krossins. Þessi hræðilegi tími átti þó sína björtu daga því Hédi kynntist þá Michael, eiginmanni sínum, sem nú er látinn. Hann hafði einnig verið í fangabúðum nasista. Þau fluttu saman til Stokkhólms og hófu þar nýtt líf.

Nauðsynlegt að vera á varðbergi

Þrátt fyrir formlegt frelsi eftir stríð tók það Hédi og eiginmann hennar mörg ár að koma undir sig fótum á nýjan leik. „Það er ekki hægt að lækna svona sálrænt áfall en það er hins vegar hægt að læra að lifa með því,“ segir Hédi. Hún segist ekki hata neinn, ekki einu sinni kvalara sína því það skili engu. Að sjálfsögðu verði hún stundum reið en það sé annað mál.

Hédi segist nota sögu sína til að vekja fólk til umhugsunar um veikleika mannkynsins. „Margir stóðu hjá og þorðu ekki að gera neitt,“ og hún segir þessa hlutlausu áhorfendur jafnseka og gerendurna. „Þýskaland var lýðræðisríki og Hitler komst til valda vegna þess að andstæðingar hans sátu bara heima og tóku ekki virkan þátt.“

Hédi hvetur fólk til að taka afstöðu og spyrja spurninga. Ekki fylgja fyrirmælum í blindni heldur leita sér stöðugt þekkingar. Víða í nútímanum sjáist sambærileg merki og voru í Þýskalandi fyrir valdatöku nasista. Hún bendir sérstaklega á Ungverjaland í því samhengi. Þar hafa öfgaflokkar sem ala á fordómum verið í sókn undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að alþjóðasamfélagið og í raun hver einstaklingur geri sitt til að koma í veg fyrir að öfgarnar nái völdum. Þá bendir hún á að aðdragandi þjóðarmorðanna í Rúanda hafi verið svipaður þeim sem var í Þýskalandi á sínum tíma: Hatur, vantraust og hræðsla.

„Það er auðvelt að segja að svona hræðilegir hlutir tilheyri aðeins fortíðinni eða fjarlægum löndum en það héldum við líka þegar ég var að alast upp í Rúmeníu.“ Það er undir núlifandi og næstu kynslóðum komið að halda sögu Hédi og annarra sem upplifað hafa slíkar hörmungar á lofti. Með því má vonandi koma í veg fyrir voðaverk á borð við Helförina. Til marks um staðfestu Hédi Fried í baráttu sinni þá neitaði hún að þiggja boð um að fara til Tyrklands að sækja ráðstefnu um þjóðarmorð. Hún segist ekki ætla þangað fyrr en yfirvöld í Tyrklandi viðurkenni þjóðarmorð sín á Armenum á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Hún nefnir að þegar Hitler hafi verið spurður hvort hann væri ekki hræddur við dóm sögunnar þegar kæmist upp um útrýmingarbúðirnar hafi hann svarað sigurviss: „Það mun enginn muna eftir þessu, sjáið Tyrkland, enginn hefur gagnrýnt þá fyrir meðferðina á Armenum.“

Bók Hédi Fried, The Road to Auschwitz. Fragments of a …
Bók Hédi Fried, The Road to Auschwitz. Fragments of a Life.
Konur í útrýmingarbúðum Nasista í Auschwitz.
Konur í útrýmingarbúðum Nasista í Auschwitz.
Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðirnar eru nú safn.
Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðirnar eru nú safn. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert