Fimm ára ástralskur drengur meiddist töluvert á fótum eftir að kúlufiskur réðst á hann þar sem hann var að vaða á Fimmtudagseyju (e. Thursday Island) í Queensland í Ástralíu. Árás sem þessi er afar sjaldgæf og raunar eru aðeins þrjár slíkar skráðar í Queensland frá árinu 1979.
Drengurinn þurfti að vera á spítala í tvær vikur og sauma þurfti þrjátíu spor í fætur hans. Kúlufiskurinn beit í báða fætur drengisns og skildi eftir sig ljót og djúp sár. Frá þessu er greint á vefsvæði Sky News.
Kúlufiskur er sagður vera eins konar blanda af halakörtu og hákarli. Fiskurinn er fremur smávaxinn en hefur beittar tennur og öfluga kjálka.
Vitað er til þess að sex ára stúlka missti eitt sinn tvær tær í kjaft kúlufisks.