Satt og logið um Titanic

Titanic leggur úr höfn frá Southampton, 4. apríl árið 1912.
Titanic leggur úr höfn frá Southampton, 4. apríl árið 1912. AFP

Hundrað ár eru brátt liðin síðan farþegaskipið Titanic sigldi á ísjaka og sökk. Um 1.500 manns týndu lífi í slysinu. Fjölmargar kvikmyndir hafa verið gerðar um jómfrúarferð skipsins margir styðjast við þær heimildir frekar en sagnfræðilegar staðreyndir, líkt og segir í grein á vef BBC. Bráðlega kemur endurgerð kvikmyndar James Cameron aftur á hvíta tjaldið og nú í þrívídd. En hvað er satt og hvað er logið í kvikmyndum um Titanic?

„Ósökkvandi“ skip

Í kvikmynd Camerons frá árinu 1997, Titanic, lítur móðir aðalsöguhetjunnar á skipið við höfnina í Southampton áður en hún gengur um borð og segir: „Svo þetta er skipið sem þeir segja að geti ekki sokkið.“

Þetta er líklega ein stærsta goðsögnin um farþegaskipið risavaxna, Titanic, að sögn Richard Howells við Kings College í London.

„Það er ekki rétt að allir hafi talið skipið ósökkvandi. Þetta er goðsögn og gerir auðvitað söguna um skipsskaðann betri,“ segir hann við BBC. Ef stoltur maður byggir ósökkvandi skip, rétt eins og Prometheus sem stal eldinum frá guðunum og var refsað grimmilega fyrir vikið, gefur það sögunni goðsagnakenndan blæ að Guð reiðist þessum manni fyrir að sýna náttúruöflunum slíka lítilsvirðingu, og sökkvi skipinu í jómfrúarferð sinni.

Útgerð Titanic, White Star Line, gaf aldrei út neinar yfirlýsingar um að skipið gæti ekki sokkið og engin nefndi það fyrr en það var komið á hafsbotninn, segir Howells.

Í raun var Titanic ekki mikið fréttaefni áður en það lagði úr höfn. Systurskip þess, Olympic, hafði þegar stolið senunni í sinni jómfrúarferð árið áður. Skipstjórinn var sá sami og á Titanic, skipið sigldi sömu leið og um borð voru jafn margir, eða jafn fáir, björgunarbátar.

Eftir að Titanic sökk voru því oft notaðar myndir af Olympic til að skreyta fréttafrásagnir. Allt þetta varð til þess að rithöfundar og kvikmyndagerðarmenn höfðu nokkuð frjálsar hendur þegar kom að því að segja sögu Titanic. Mýturnar og dulúðin var því fljót að umvefja Titanic í fjölmiðlum eftir að það sökk.

Hljómsveitin spilaði þar til yfir lauk

Eitt þekktasta atvikið sem átti sér stað um borð í Titanic snertir hljómsveitina sem spilaði á þilfarinu allt þar til skipið sökk í sæ. Tónlistarmennirnir léku angurværa tóna á meðan farþegarnir reyndu að komast frá borði. Sjónarvottum ber saman um að þetta hafi raunverulega gerst en hins vegar eru ekki allir sammála um hvert lokalagið var. Á forsíðu Daily Mirror 20. apríl 1912, nokkrum dögum eftir að Titanic fórst, stóð að tónlistarmennirnir væru hetjur, þeir hefðu leikið lagið „Nearer, My God, To Thee“ allt þar til skipið sökk.

Sjónarvottum ber ekki saman um hvert lokalagið var, sumir segja að þeir hafi leikið fjörlegri tónlist. Svo má ekki gleyma því að þeir sem lifðu af og gátu sagt frá voru farnir frá borði áður en lokalagið var flutt, skipið sökk og tónlistarmennirnir sjö fórust.

En handritshöfundum þótti viðeigandi að halda sig við þá sögu að sungið hafi verið um Guð á ögurstundu.

Dauði skipstjórans

Lítið er í raun vitað um síðustu stundir skipstjóra Titanic, Edwards Smith, en hans er þó minnst sem hetju þrátt fyrir að hafa hundsað aðvaranir um ísjaka á siglingarleiðinni og bætt í hraða skipsins frekar en að draga úr honum. Það eru því ekki allir sammála því að Smith hafi verið hetja. „Hann vissi manna best hversu margir farþegar voru um borð og hversu mörg pláss væru í björgunarbátunum en hann samþykkti þó að senda báta frá borði hálf tóma,“ segir Paul Louden-Brown, sem starfar við Titanic-sögusafnið og var ráðgjafi Camerons við gerð kvikmyndarinnar árið 1997.

Smith var engu að síður gerður að hetju og styttur reistar af honum. Þá voru gefin út póstkort með teikningum af skipstjóranum að synda í sjónum með barn í fanginu. Allt þetta segir Louden-Brown tóma þvælu. Smith hafi verið skipstjórinn og borið ábyrgð á velferð farþega sinna. Hann hafi ekki gefið út fyrirmæli um að allir ættu að yfirgefa skipið sem þýddi að margir áttuðu sig alls ekki á alvöru ástandsins.

Óprúttni peningamaðurinn

Það fara ófagrar sögur af J. Bruce Ismay, forstjóra White Star Line, skipafélaginu sem gerði út Titanic. Hann er sagður hafa verið heigull sem hafi jafnvel laumað sér frá borði á meðan börn drukknuðu allt í kringum hann. Þá er hann í flestum kvikmyndum sagður hafa þrýst á skipstjórann að auka siglingarhraðann til að ná því að komast til New York í tíma fyrir síðdegisdagblöðin. Þetta illmenni smellpassar inn í dramatíska sögu Titanic. En var það virkilega svo?

Sjónarvottar eru ekki á einu máli. Sumir segja að hann hafi stokkið um borð í fyrsta björgunarbátinn sem settur var í sjóinn við Titanic. Aðrir segja að honum hafi verið skipað um borð í björgunarbát af þeim sem stjórnuðu aðgerðum.

Í rannsókn sem gerð var á skipskaðanum var komist að þeirri niðurstöðu að Ismay hafi aðstoðað marga farþega við að komast í björgunarbáta áður en hann gerði slíkt hið sama.

Farþegar á þriðja farrými

Mesta reiði fólks hefur þó vakið sú saga að farþegar á þriðja farrými, fátækt fólk í leit að betra lífi í Bandaríkjunum, hafi verið læst inni og meinað að komast upp á þilfar í björgunarbáta. Richard Howells við Kings College í London segir engar staðreyndir styðja þetta. Rétt er hins vegar að hlið voru við útganga á 3. farrými samkvæmt lögum um innflytjendur í Bandaríkjunum og vegna ótta um að smitsjúkdómar gætu breiðst út.

Farþegar á hverju farrými höfðu aðgang að eigin þilfari en engir björgunarbátar voru þó á þilfari við 3. farrými. Þá er það einnig rétt að farþegar á 3. farrými þurftu um langan veg að fara til að komast upp á þilfarið þar sem björgunarbátarnir voru geymdir.

Í rannsókninni sem gerð var í kjölfar slyssins komu þó fram vísbendingar um að einhver hliðanna hafi verið læst er skipið fór að sökkva. Starfsfólk Titanic vissi ekki hvort það ætti að opna hliðin eða ekki og það hafi tafið fyrir fólki að komast í bátana. Flestir þeirra hafi verið farnir frá borði. Þá kemur einnig fram í rannsóknarskýrslunni að farþegar á 3. farrými hafi verið tregir til að fara frá borði.

En tölfræðin talar sínu máli. Hlutfallslega björguðust færri af þriðja farrými en því fyrsta og öðru.

Hetja eða heigull? Skipstjórinn Edward Smith.
Hetja eða heigull? Skipstjórinn Edward Smith. AFP
Mörg póstkort voru gerð af Titanic eftir að skipið var …
Mörg póstkort voru gerð af Titanic eftir að skipið var sokkið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert