Sheikh Abdul Aziz Bin Abdullah, æðsti trúarleiðtogi múslima í Sádi Arabíu, hefur lýst því yfir að nauðsynlegt sé að leggja í rúst allar kirkjur á Arabíuskaganum.
Ummælin lét Abdullah falla þegar hann var spurður út í hugmyndir þingmanns á löggjafarþingi Kúveit þess efnis að banna allar kirkjur þar í landi. Abdullah svaraði spurningunni á eftirfarandi máta: „Það er nauðsynlegt að eyðileggja allar kirkjur á svæðinu. Það eiga ekki að vera tvenn trúarbrögð á Arabíuskaganum“.
Ummæli Abdullah hafa verið harðlega gagnrýnd af trúarleiðtogum, þ.á.m. öðrum múslimum. „Æðsti trúarleiðtoga múslima í Sádi Arabíu, Sheikh abdul Aziz bin Abdullah, ber að fordæma og andmæla vegna hinna hrikalega óheppilegu og and-íslömsku ummæla hans um kristileg samfélög á Arabíuskaganum,“sagði Abdullah T. Antepli, múslima prestur við Duke háskóla, í yfirlýsingu sem hann sendi á bandarísku fréttasíðuna The Hufffington Post.
Að sögn Antepli eru ummæli Abdullah augljóslega brot gegn íslömskum lögum, siðum og siðferði. Hann hvetur kristið fólk á svæðinu til þess að leita réttar síns gagnvart trúarleiðtoganum umdeilda.
Nánar má lesa um málið á vef The Hufffington Post.