Vopnahlé eins og olía á ófriðarbál

Páskahelgin hefur verið hlaðin ofbeldi í Sýrlandi en samið hefur verið um vopnahlé sem taka á gildi á þriðjudag. Átökin í dag hafa kostað að minnsta kosti 31 mann lífið og yfir 200 hafa verið handteknir.

Engu er líkara en að fregnir af fyrirhugðu vopnahléi hafi verið olía á ófriðarbálið. Kofi Annan, sérlegur sendimaður Sameinuðu þjóðanna og Arababandalagsins, sem á frumkvæði að vopnahléinu, segir átökin um helgina „óásættanleg“.

Stjórnarhermenn og herir andspyrnuhreyfingarinnar tókust hart á í dag víðs vegar um landið. Af þeim sem fallið hafa í dag eru að minnsta kosti 12 óbreyttir borgarar en stríðið hefur kostað fjölmarga lífið undanfarna mánuði, yfir 9.000 hafa fallið.

Þá handtóku stjórnarhermenn að minnsta kosti 200 manns í dag í þeim tilgangi að veikja stöðu uppreisnarmannanna.

Í gær féllu 128 manns í Sýrlandi í átökunum, flestir í bænum Latamna.

Sprengjuregn í borginni Homs sést á myndbandi sem sett var inn á vefinn YouTube í gær en vestrænir fjölmiðlar eiga erfitt með að komast til Sýrlands til að fylgjast með átökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka