Það hefur verið svo heitt í Bandaríkjunum að undanförnu að hitamet hafa verið slegin og rúmlega það, eftir því sem AP fréttastofan greinir frá.
Hitinn í 48 ríkjum hefur verið 5°C hærri en marsmánuði en almennt gerist. Þá er hitinn fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins einnig talsvert hærri en í meðalári, samkvæmt opinberum niðurstöðum í Bandaríkjunum.
„Allir hafa þessa óþægilegu tilfinningu. Þetta er furðulegt og ekki gott,“ segir Jerry Meehl, veðurfræðingur sem hefur sérhæft sig í sérstökum veðurafbrigðum.
Þrátt fyrir að veðrið sé óvenjulegt í Bandaríkjunum hefur sama þróun ekki verið á öðrum stöðum á norðurhveli jarðar, en þar hefur víða verið óvenju kalt upp á síðkastið.
Í venjulegum marsmánuði er meðalhitinn í Bandaríkjunum 6°C. Á þessu ári hefur hitinn verið 11°C, sem er nær meðalhitanum í apríl. Aðeins einu sinni áður, í janúar 2006, náðu meðalhitatölur einhverjum sambærilegum hæðum.
„Þegar þú skoðar það sem er að gerast í mars á þessu ári, þá er það meira en ótrúlegt,“ sagði Andrew Weaver, veðurfarsvísindamaður við Victoria-háskólann í Bandaríkjunum.