Sovétkúgun tekur við af Stalín

Maður blaðar í bók um Stalín, en bókin er í …
Maður blaðar í bók um Stalín, en bókin er í ritröð um merka Rússa. Reuters

Stalín-safninu í Gori í Georgíu verður breytt í safn til minningar um fórnarlömb kúgunarinnar á Sovéttímanum, að því er yfirvöld í Georgíu greindu frá í dag.

Jósef Stalín, sem þykir vera einn alræmdasti sonur Georgíu, var frá Gori í austurhluta Georgíu. Á hverju ári koma hópar gamalla kommúnista á afmælisdegi Stalíns til að skoða safnið, sem er „fjarstæðukennur arfur sovéskrar alræðishyggju,“ eins og Nicoloz Rurua, menningarmálaráðherra Georgíu, sagði í samtali við AFP-fréttaveituna.

Hann sagði við heimsókn í safninu að í framtíðinni verði þar minnst „fórnarlamba Stalínismans“ og að safnið í núverandi mynd sé „ósamrýmanlegt“ Georgíu nútímans og framtíðarinnar.

„Slíkt safn getur ekki verið til í landi sem er enn að takast á við eftirhreytur Sovétveldisins,“ sagði hann og þótti þar vísa til stirðra samskipta Georgíu við fyrrum herraþjóð og skammvinn átök árið 2008 vegna stuðnings Kremlverja við aðskilnaðarsinna í Suður-Ossetíu.

„Sagan verður ekki afmáð og við verðum að gera grein fyrir þessari mjög svo erfiðu blaðsíðu í sögu okkar innan þessara veggja með viðeigandi hætti,“ sagði ráðherrann.

Stalín-safnið í Gori var opnað árið 1937 í litlu múrsteinshúsi þar sem einræðisherrann fæddist. Árið 1957 var reist bygging úr graníti og marmara í nágrenninu yfir sýningu sem upphóf líf Stalíns og sveipaði það dýrðarljóma.

Stjórnvöld í Georgíu létu árið 2010 fjarlægja risastóra bronsstyttu af Stalín sem staðið hafði á aðaltorginu í Gori frá árinu 1952.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert