Harður eftirskjálfti varð undan ströndum Súmötru í Indónesíu kl. 10.43 og mældist hann 8,2 stig að sögn Bandarísku jarðfræðistofnunarinnar. Fyrsti skjálftinn var 8,6-8,7 stig. Ný flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út. Þúsundir flýja strandsvæði landa við Indlandshaf. Reuters-fréttastofan segir fleiri eftirskjálfta hafa orðið og segir þá hugsanlega vera 8,1-8,8 stig. Fréttastofan segir einnig að yfirborð sjávar á lítilli eyju við upptök skjálftans hafi lækkað um 10 metra. Fréttaritarar í Jakarta segja einn eftirskjálftann hafa varað í fjórar mínútur.
Fyrsti skjálftinn reið yfir kl. 14.34 að staðartíma, kl. 8.34 að íslenskum tíma. Mörg lönd við Indlandshaf hafa fyrirskipað rýmingu á strandsvæðum.
Flóðbylgjumiðstöðin við Kyrrahaf segir að fyrri skjálftann hafa valdið flóðbylgju en óljóst sé hversu stór hún er. Fyrstu fregnir herma að hún hafi mælst 17 cm á upptakasvæði skjálftans, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Eftirskjálftinn varð um 615 kílómetrum undan ströndum borgarinnar Banad Aceh á Súmötru kl. 10.43 að íslenskum tíma.
Fyrsti skjálftinn varð kl. rúmlega 8.30 í morgun að íslenskum tíma, 14.30 að staðartíma, úti fyrir ströndum Súmötru. Skjálftinn mældist 8,7 stig og fannst víða, m.a. í Singapúr, Taílandi, Sri Lanka og á Indlandi. Umferðarteppur hafa myndast á götum borga og mikil ringulreið ríkir víða er fólk reynir að flýja heimili sín.
Flóðbylgjuviðvaranir voru gefnar út strax í kjölfar skjálftans og ríkisstjórnir margra landa við Indlandshaf hafa fyrirskipað íbúum á strandsvæðum að yfirgefa heimili sín. Enn hafa engar fregnir borist af skemmdum eða mannfalli á jarðskjálftasvæðunum en rafmagnslaust er t.d. í Aceh-héraði.
Í Aceh-héraði á Súmötru, en fyrsti skjálftinn varð um 495 km úti fyrir ströndum eyjarinnar, hefur mikil örvænting gripið íbúa enda varð svæðið mjög illa úti í hamförunum árið 2004. Þá týndu um 170 þúsund íbúar þar lífi.
Þekkir þú til? Ef þú ert á áhrifasvæði skjálftans eða þekkir einhvern sem þar er staddur, vinsamlega sendu póst á netfrett@mbl.is