Þriggja mánaða stúlkubarn á Indlandi lést í dag eftir að faðir stúlkunnar lét höggin dynja á líkama hennar. Ástæðan er talin vera sú að hann vildi heldur eignast dreng en stúlku. Milljónir stúlkna á Indlandi eru vanræktar af fjölskyldum sínum sökum kynferðis síns.
Stúlkan, sem hét Neha Afreen, lést vegna hjartabilunar á sjúkrahúsi þremur dögum eftir árásina. AFP-fréttastofan hefur eftir talsmanni sjúkrahússins að læknar hafi gert allt sem hægt hafi verið til að bjarga lífi hennar. Þær tilraunir báru þó engan árangur.
Stúlkan var með mikla og alvarlega höfuðáverka, gróf sár og bitför um allan líkama þegar komið var með hana á sjúkrahúsið. Faðirinn hefur verið handtekinn af lögreglu og er málið í rannsókn.
„Eiginmaður minn var mjög reiður út í mig vegna þess að ég ól honum stúlkubarn. Hann hataði stúlkuna og vildi að ég losaði okkur við hana því hann vildi heldur eignast son,“ segir móðirin í samtali við fréttamenn.
Morðið á Afreen er langt í frá einsdæmi því reglulega berast fregnir af stúlkubörnum á Indlandi sem hafa þurft að þola pyntingar, verið yfirgefnar af fjölskyldu sinni eða myrt vegna kynferðis síns.
Hlutfall stúlkna á Indlandi er nú 914 miðað við hverja 1.000 drengi. Það er nokkuð undir heimsmeðaltalinu sem er 952 stúlkur á hverja 1.000 drengi.