74,7% Norðmanna eru andvígir aðild að Evrópusambandinu samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem unnin var af fyrirtækinu Sentio fyrir norsku dagblöðin Nationen og Klassekampen og birtar voru í gær. 15,2% vilja hins vegar að Noregur verði aðili að sambandinu.
Fram kemur á fréttavefnum Abcnyheter.no að niðurstöðurnar séu í samræmi við síðustu kannanir í Noregi en það sé ný staða að meirihluta gegn aðild að ESB sé nú að finna í öllum þjóðfélagshópum. Áður hafi það aðallega átt við um landsbyggðina, láglaunafólk og konur. Nú séu hins vegar til að mynda 71% þeirra sem séu með yfir eina milljón norskra króna í árstekjur (rúmlega 22 milljónir íslenskra króna) á móti aðild að ESB.
Þá segir að mikill meirihluti kjósenda allar stjórnmálaflokka í Noregi sé á móti aðild að ESB. Mest sé andstaðan á meðal kjósenda Miðflokksins (systurflokkur Framsóknarflokksins) og næst mest kjósenda Framfaraflokksins og Kristilega þjóðarflokksins. Þá sé mestur stuðningur við aðild að ESB í höfuðborginni Ósló en þar eru 24% hlynnt aðild en 67% á móti henni.
Frétt Abcnyheter.no