Zimmerman úrskurðaður í varðhald

Angela Corney saksóknari tilkynnti á blaðamannafundi að ákveðið hefði verið …
Angela Corney saksóknari tilkynnti á blaðamannafundi að ákveðið hefði verið að ákæra Zimmerman. REUTERS

George Zimmerman sem skaut Trayvon Martin til bana í lok febrúar verður ákærður fyrir morð. Hann var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Þann 26. febrúar sl. var Martin á leið heim úr búð og gekk hann í gegnum hverfi sem er vaktað af nágrannavörslu. Zimmerman hringdi í lögregluna og tilkynnti um grunsamlegar mannaferðir og var hann beðinn um að halda kyrru fyrir. Hann fór hinsvegar á eftir Martin og hljóðar frásögn hans af því sem á eftir fór á þá leið að Martin hafi skyndilega komið aftan honum, kýlt hann og barið höfði hans við gangstétt. Hann hafi því skotið Martin í sjálfsvörn.

Zimmerman hefur sagst hafa kallað á hjálp en fjölskylda Martins segir það rangt, það hafi verið pilturinn sem hrópaði eftir aðstoð. Zimmerman hefur ekki verið handtekinn en samkvæmt lögum í Flórída nýtur hver sá sem banar einhverjum friðhelgi ef hægt er að sýna fram á að honum hafi stafað lífshætta af viðkomandi.

Viðbrögð lögreglu í þessu máli hafa verið harðlega gagnrýnd, en hún lét Zimmerman lausan. Eftir að gagnrýni á málmeðferðina jókst var skipaður sérstakur saksóknari sem nú hefur ákveðið að ákæra Zimmerman fyrir morð af annarrar gráðu.

Fjölskylda Trayvon Martin lýsti ánægju með ákvörðun saksóknara.

Nýr lögmaður Zimmermans sagði í kvöld að Zimmerman myndi lýsa sig saklausan af ákærunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert