Saksóknari í Florída ætlar að ákæra Gorge Zimmerman sem í lok febrúar skaut Trayvon Martin. Zimmerman var við nágrannavörslu og fannst Martin grunsamlegur, en Martin var óvopnaður og var að flýta sér heim til sín.
Þetta mál hefur vakið gríðarlega athygli í Bandaríkjunum, ekki síst vegna fyrstu viðbragða lögreglunnar sem taldi ekki ástæðu til að handtaka Zimmerman. Martin var 17 ára blökkumaður. Hafin var undirskriftasöfnun í Bandaríkjunum þar sem skorað var á lögregluyfirvöld að rannsaka málið betur.
Skipaður var sérstakur saksóknari, Angela Corey, til að rannsaka málið og segir í frétt í Wasington Post í dag að hún hafi ákveðið að ákæra Zimmerman. Ekki sé hins vegar ljóst á hvaða grunni ákæran byggist.