Á að senda út framburð Breiviks?

Geir Lippestad, aðalverjandi Anders Behring Breivik, umkringdur fjölmiðlafólki.
Geir Lippestad, aðalverjandi Anders Behring Breivik, umkringdur fjölmiðlafólki. AFP

Úrskurði héraðsdómstólsins í Ósló um að framburður norska fjöldamorðingjans Anders Behrings Breiviks yrði ekki sendur út beint í sjónvarpi hefur verið áfrýjað til hæstaréttar af samtökum norskra ritstjóra og blaðamannafélagi Noregs.

Búist er við að hæstiréttur skili niðurstöðu í lok vikunnar, en réttarhöldin hefjast næstkomandi mánudag, þann 16. apríl.

Formaður blaðamannafélagsins, Per Edgar Kokkvold, segir að nauðsynlegt sé að almenningur fái að sjá Breivik útskýra mál sitt. Það sé sérlega mikilvægt í ljósi þess að sálfræðingum ber ekki saman um hvort hann sé andlega heill eða ekki.

„Það er allt annað að sjá þetta en að lesa hvað hann segir. Sjónvarpið er besti miðillinn við að koma persónu fólks á framfæri. Að sjá hann, lesa í líkamstjáningu hans og hvernig hann kemur fram er mikilvægt og ég tel að viðhorf dómstólanna til sjónvarpsins sé úrelt,“ segir Kokkvold í samtali við Aftenposten.no.

Hann segir að ekki þurfi að vera um beina útsendingu að ræða, hægt sé að fresta útsendingunni sé ástæða talin til ritskoðunar.

Alf Petter Høgberg, sem er prófessor í refsirétti, segir að það skapi viss vandamál að senda framburð Breiviks ekki út. Það sé ósanngjarnt gagnvart honum að senda út aðra hluta réttarhaldanna. „Þetta er ekki við hæfi réttarríkis, svona gæti maður búist við að sjá í einræðisríki,“ segir Høgberg. „Annað hvort sendum við allt út eða ekki neitt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert