Talsmaður finnska stjórnmálaflokksins Sannir Finnar lagði til að þeir útlendingar, sem búa í Finnlandi, beri merki á erminni svo að unnt sé að þekkja þá úr hópi fólks. Ummælin hafa vakið reiði víða, en talsmenn flokksins segja þau vera grín. Meðal helstu stefnumála Sannra Finna er að innflytjendalöggjöf landsins verði hert.
Þessi skrif hafa minnt marga á þær gulu stjörnur sem gyðingar þurftu að bera að skipan nasista í síðari heimsstyrjöldinni.
Flokkurinn hefur ekki farið í launkofa með skoðanir sínar á innflytjendum og hefur til dæmis lagt til að þeir íbúar landsins, sem ekki eru af finnsku bergi brotnir, beri annars konar persónuskilríki en hinir.
Einn þingmanna flokksins, Jussi Halla-Aho var í hitteðfyrra dæmdur fyrir bloggfærslur sínar þar sem hann skrifaði að allir sómalískir innflytjendur væru glæpamenn og líkti íslamstrú við barnaníð. Flokkurinn er nú sá þriðji stærsti í Finnlandi.
Í umræddri bloggfærslu, sem fjallað er um á sænska fréttavefnum dn.se skrifar Helena Eronen, sem er aðstoðarmaður þingmannsins James Hirvisaari, að mikill hægðarauki gæti hlotist af því ef útlendingar bæru merki á ermi sinni, því þá gæti lögregla séð það á augabragði. Lagt er til að múslímar beri hálfmána, Rússar hamar og sigð, Kambódíumenn jarðsprengjur og Bandaríkjamenn væru með hamborgara.
Einnig telur hún að merkja eigi Finnlands-Svía og þá sem ekki eru gagnkynhneigðir.
Blaðamaður dn.se hafði samband við Eronen, sem sagði að um lélegt grín væri að ræða. Hún sagði að Sannir Finnar væru gjarnan misskildir og bloggfærslan var síðan fjarlægð.