Forseti Suður-Afríku, Jacob Zuma, mun ganga að eiga fjórðu konuna um næstu helgi og fer athöfnin fram í heimabæ fjölskyldu hans, Nkandla í KwaZulu-Natal héraði.
Verður þetta í sjötta skiptið sem Zuma gengur í hjónaband en hann skildi við Nkosazana Dlamini-Zuma árið 1998. Önnur eiginkona hans, Kate, framdi sjálfsvíg árið 2000.
Í dag á hann þrjár eiginkonur og verður Bongi Ngema, unnusta hans, sú fjórða í röðinni. Zuma varð sjötugur á fimmtudag en hann á alls um tuttugu börn með konum sínum.
Zuma og Ngema eiga þriggja ára gamlan son saman en ástarmál Zuma hafa oft vakið athygli en um leið deilur. Zuma var sýknaður af nauðgunarkæru árið 2006 en hann hafði ítrekað kynmök við konu sem var HIV smituð. Zuma fullyrti að hann hefði haft mök við konuna með vilja hennar en hann þykir hafa opinberað vanþekkingu sína á útbreiðslu alnæmis þegar hann bar fyrir réttinum að hann hefði farið í sturtu til að smitast ekki af sjúkdómnum.
„Margir stjórnmálamenn eiga sér hjákonur og börn sem þeir fela til að þykjast vera einkvænismenn. Ég vil vera opinskár. Ég elska konurnar mínar og er stoltur af börnunum mínum,“ segir Jacob Zuma þegar fjölmiðlar spyrja hann um ástæður fjölkvænisins.