Vilja evruna en ekki frekara aðhald

Mótmæli í Aþenu, höfuðborg Grikklands, gegn efnahagsástandinu í landinu og …
Mótmæli í Aþenu, höfuðborg Grikklands, gegn efnahagsástandinu í landinu og aðhaldsaðgerðum stjórnvalda. Reuters

Meirihluti Grikkja er andvígur kröfum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um frekari aðhaldsaðgerðir í Grikklandi sem settar hafa verið sem skilyrði fyrir frekari efnahagsaðstoð. Þetta kom fram í niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var síðastliðinn laugardag og birtar voru í dagblaðinu Ekathimerini.

Samkvæmt könnuninni vilja 66% Grikkja vera áfram á evrusvæðinu en hins vegar vilja þeir að farin verði önnur leið til þess að koma efnahagsmálum Grikklands á réttan kjöl en að koma á frekari aðhaldsaðgerðum eins og ESB og AGS krefjast. 13,2% sögðust hins vegar vilja yfirgefa evrusvæðið.

Forystumenn ESB hafa ítrekað lýst því yfir að frekari efnahagsaðstoð við Grikkland sé háð því skilyrði að grísk stjórnvöld grípi meðal annars til enn frekari niðurskurðar, skattahækkana og sölu ríkiseigna en gert hefur verið til þessa. Talið er að fái Grikkir ekki frekari aðstoð kunni þeir að neyðast til þess að yfirgefa evrusvæðið.

Grískir ráðamenn hafa hins vegar heitið því að koma til móts við kröfur ESB og AGS og koma á þeim aðhaldsaðgerðum sem farið hefur verið fram á. Alls óvíst er þó hvort efnahagsaðstoðin og aðhaldaaðgerðirnar skili sér í því að grískt efnahagslíf nái sér á strik aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert